„Breytingar frá því sem var í gær eru að eldsuppkomunæmið hefur færst alfarið til Fagradalsfjalls eins og sýnt er á myndinni,“ segir í tilkynningu frá Eldfjallafræði- og náttúruváhóp Háskóla Íslands, sem birt var kl. hálftíu í morgun.
Líklegustu gossvæðin samkvæmt núverandi spá hópsins eru öll fjarri þéttbýli og því er byggð hvergi í hættu ef til gos kemur á næstunni. Hópurinn birti meðfylgjandi mynd með tilkynningunni en í henni segir:
„Breytingar frá því sem var í gær eru að eldsuppkomunæmið hefur færst alfarið til Fagradalsfjalls eins og sýnt er á myndinni (99% þröskuldur). Myndin sýnir líka að líklegustu eldsuppkomusvæðin eru fjarri þéttbýli. Raunhæft mat á því hvert hraun geta flætt út frá upptakasvæðinu sem sýnt er á myndinni fæst með því að láta gjósa á 55 stöðum með föstu millibili innan svæðisins. Hvert eldgos er síðan endurtekið 1500 sinnum. Í eftirfarandi greiningu skoðum við líklegustu rennslisleiðir frá hverjum gospunkti inni á eldsuppkomusvæðinu. Því oftar sem líkanið beinir hrauninu í ákveðna átt, því líklegra er að hraunstraumurinn fylgi þeirri leið. Við viljum jafnframt benda á að við erum ekki með nákvæma staðsetningu á eldsuppkomunni og þess vegna eru allir gospunktarnir teknir inn í hraunrennslispánna. Við tökum einnig fram að hraunrennslisspáin sýnir einungis mögulegar rennslisleiðir hrauns út frá þeim forsendum sem notaðar eru í líkanreikningunum. Sterkustu (dekkstu) litirnir sýna líklegustu leiðirnar, ljósir litir leiðir sem líkurnar eru miklu minni. Hraunrennslislíkanið er ekki að spá fyrir um eldgos og ný keyrsla er í vinnslu og verður kynnt um leið og það er búið. Við vinnslu eldsuppkomunæmis er notast við langtímamat á eldvirkni og staðsetningu jarðskjálfta frá Veðurstofu Íslands.“
Skjálftavirkni er enn mikil á Reykjanesskaga en enginn gosórói er. Því er eldgos ólíklegt á næstunni. Stærstu skjálftar sem mælst hafa í dag hafa verið rúmlega 3.