Í gærkvöld var maður handtekinn í miðbænum þar sem hann var að berja í bíla með hamri. Var maðurinn í annarlegu ástandi og með fíkniefni á sér. Hann var vistaður í fangaklefa vegna málsins.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglu. Þar segir einnig frá því að maður féll af hlaupahjóli og lenti á andlitinu. Var hann fluttur á slysadeild til aðhlynningar.
Maður var handtekinn í Hafnarfirði í gær þar sem hann var að veitast að fólki. Var maðurinn í mjög annarlegu ástandi og var látinn sofa úr sér í fangaklefa.
Allmargir ökumenn voru stöðvaðir sem reyndust aka undir áhrifum fíkniefna og voru þeir sviptir ökuréttindum á staðnum. Einnig voru tíu hávaðakvartanir þar sem kom til kasta lögreglu.