Landsréttur staðfesti í dag sýknudóm yfir konu sem lýsti ofbeldi sem hún hafði verið beitt af fyrrverandi sambýlismanni sínum á Facebook síðu sinni og í metoo hópi. Meðal ummælana var ljóð sem konan samdi um ofbeldið og birti á Facebook.
Ummælin lét konan falla í september 2018 og janúar 2019. Maðurinn og konan höfðu verið í sambúð í nokkur ár og á þeim árum eignast tvo stráka saman. Þegar fólkið sleit samvistum upphófust málaferli fólksins á milli um forsjá og lögheimilisskráningu barnanna og umgengni. Málaferlum þeim lyktaði svo loks með dómsátt fólksins á milli. Hluti sáttarinnar snéri að hátterni sem fólkið lofaði að hafa uppi fyrir framan börnin. Samþykktu þau þar að sýna hvort öðru virðingu og tala ekki illa hvort um annað í áheyrn barna sinna eða á opinberum vettvangi, að því er segir í dómi Landsréttar frá því í dag.
Í þeim dómi kemur jafnframt fram að umrædd dómsátt hélt ekki og höfðu þegar málið var til umfjöllunar í héraðsdómi deilur um forsjá og umgengni sprottið upp á ný. Þá hafa beiðnir um breytingar á efni sáttarinnar verið lagðar fram hjá sýslumanni, samkvæmt reglum þar um. „Í uppsiglingu gæti verið nýtt forsjármál,“ sagði í dómnum.
Ummælin sem konan lét falla þann 25. september 2018 voru svo hljóðandi:
„[…] let mér liða eins og minn fyrrverandi let mér liða, […].“
„Þó að þú sparkir í mig.“
„Hnefinn þinn harður, tungan þín sker.“
„Blóð, sviti og tár, hvað hefurðu gert? Aum og marin, hvað hef ég gert?“
„Laus við ofbeldið, laus við þig.“
Þann 7. janúar 2019 lét konan eftirfarandi ummæli falla:
„Ekki var það ég sem sat inni eina nótt fyrir að rústa íbúðinni og ráðast á mig, nei það gerði hann.“
„En það er bara smá partur af því sem upp kom í þessu sambandi.“
Þann 14. janúar 2019 lét konan þessi ummæli falla:
„„Barnið sagðist sakna pabba síns stundum“ er það eina sem var tekið til greina frá skýrslutökunni sem var tekin af syni mínum. Þrátt fyrir allt ofbeldið sem hann sagði frá, þrátt fyrir að eitt af því ofbeldi sem hann sagði frá var það alvarlegt að barnavernd kærði hann fyrir það.“
„Ástæðan er orð […] ára barns á móti föður síns og hann vogaði sér að segjast sakna pabba síns stundum.“
„Barnið ólst upp við þetta og þekkir ekkert annað. Hann reyndi að segja oft frá en með tímanum fór það minnkandi og hætti hann nánast alveg vegna hræðslu við föður síns og hans við brögð þegar ég var neydd til að senda þá í umgengni til hans.“
„[…] löngu áður en ég fór frá mínum ofbeldismanni, til að ath. réttindi mín og barnanna minna ef ég færi frá manni sem beitti okkur ofbeldi.“
„[…] að verja börnin fyrir ofbeldi af hendi föður þeirra.“
Maðurinn stefndi konunni vegna ummælanna ofangreindra og krafðist einnar milljónar í miskabætur auk 250 þúsunda vegna kostunar á birtingu forsenda dómsins í dagblaði. Ekki hafði maðurinn erindi sem erfiði í málinu enda, sem fyrr segir, sýknaði Héraðsdómur Reykjaness konuna af kröfum mannsins í desember 2019 og í gær staðfesti svo Landsréttur þá niðurstöðu. Málið er því úr sögunni. 750 þúsund króna málskostnaður sem héraðsdómur hafði dæmt manninn til að greiða fellur nú niður, samkvæmt dómi Landsréttar.
Við meðferð málsins lagði konan fram fjölda gagna sem studdu við umrædd orð sín. Þeirra á meðal voru sex tilkynningar til barnaverndar árin 2013 til 2016, fjórar áætlanir barnaverndar um meðferð máls árin 2014 og 2015, bakvaktarskýrslu barnaverndar frá því í ágúst 2013, dagnótur fjölskyldumeðferðarfræðings, sálfræðings og geðhjúkrunarfræðings frá árunum 2013 og 2016. Því til viðbótar lagði konan fram nótur læknis, vottorðs sérfræðings í klínískri sálfræði, matsgerð sálfræðings, bréf Velferðarsviðs sveitarfélagsins sem konan bjó í til lögreglu, færslur úr dagbók lögreglu, endurrit úr þingbók Héraðsdóms Reykjanes vegna viðtals við barn sitt í Barnahúsi, auk annarra gagna.
Í niðurstöðukafla héraðsdóms segir að konan hafi birt ummælin á Facebook síðu sinni og í svokölluðum #metoo hópi og gert það án þess að nafngreina manninn. Óvíst er hversu margir sáu færslur konunnar og hversu margir tengdu að um væri að ræða þennan tiltekna mann. Að teknu tilliti til þessa og annarra gagna og atvika málsins komst héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að of miklar hömlur yrðu settar á stjórnarskrárvarinn rétt hennar til frjálsrar tjáningar væri henni meinað að tjá sig með þeim hætti sem um ræðir í málinu, „og í tengslum við mikilvæg samfélagsleg málefni.“
Þá segir jafnframt í niðurstöðu héraðsdóms:
Rétt þykir að taka fram að með engum hætti felst í niðurstöðu málsins að stefnandi hafi gerst brotlegur við ákvæði almennra hegningarlaga þótt ekki hafi verið fallist á sjónarmið hans um ómerkingu ummæla stefndu, eða verður forsjárhæfni aðila metin út frá niðurstöðu málsins.