Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Haft er eftir Magnúsi að ekki sé mikill þrýstingur á svæðinu en ekki sé útlit fyrir að óróanum sé að ljúka því enn sé mjög mikil skjálftavirkni.
Hvað varðar eldgos sagði hann að það muni ekki hefjast fyrirvaralaust og fyrstu vísbendingarnar séu nú þegar komnar fram. „Ef kvikan fer að brjóta sér leið upp myndi það sýna sig í lágtíðnióróa, svipað og gerðist á miðvikudag,“ sagði hann.
Aðspurður sagði hann að svæði á milli Fagradalsfjalls og Keilis sé eina svæðið þar sem gos getur komið upp á meðan virknin er bundin við það svæði. Jarðskjálftar sem eigi upptök lengra frá séu afleiðing af þessari virkni og ekki sé kvika þar undir sem geti náð upp á yfirborðið. „Það er ekki sennilegt að þessi virkni hleypi af stað gosi annars staðar,“ sagði hann.
Hvað varðar stóran jarðskjálfta í Brennisteinsfjöllum, upp á 6 til 6,5, þá er kominn tími á hann að sögn Magnúsar og því ætti fólk að vera undir hann búið. Hann tók jafnframt fram að engin merki væru á því svæði núna um skjálfta.