Bann við drónaflugi sem Lögreglustjórinn á Suðurnesjum setti á í gær og afmarkaðist við Reykjanesbraut, Grindavíkurveg, Krísuvíkurleið og Suðurstrandaveg verður aflétt klukkan 19:00 í kvöld. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samskiptastjóra Almannavarnadeildar.
Bannið var sett á vegna þyrluflugs og annarra starfa viðbragðs- og vísindamanna á svæðinu. Klukkan sjö í kvöld mun könnunarflug almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra ljúka og því ekki lengur þörf fyrir bannið.
Fram kemur að Ef til eldsumbrota kæmi á næstu dögum, vikum eða mánuðum sem krefðist lokunar á ný muni tilkynning þess efnis verða send.
Yfirlýsingin er eftirfarandi:
„Vegna hugsanlegra eldsumbrota á Reykjanesskaga og af öryggisástæðum vegna þyrluflugs og annarra starfa viðbragðs- og vísindamanna, lagði Lögreglustjórinn á Suðurnesjum, fyrir hönd Samgöngustofu í gær bann við flugi dróna á svæðinu sem markaðist af Reykjanesbraut, Grindavíkurvegi, Krísuvíkurleið og Suðurstrandavegi. Þessu banni verður aflétt klukkan 19:00 í kvöld (4. mars 2021) þegar könnunarflugi almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra lýkur. Ef til eldsumbrota kæmi á næstu dögum, vikum eða mánuðum sem krefðist lokunar á ný mun tilkynning verða send.“