Anton Kristinn Þórarinsson er nú laus úr haldi lögreglu en hann var rétt í þessu úrskurðaður í farbann. Í tilkynningu frá lögreglu segir að ekki hafi verið farið fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir manni sem setið hefur í gæsluvarðhaldi undanfarin hálfan mánuð. Samkvæmt öruggum heimildum DV er þar um að ræða Anton.
Anton er einn fjölmargra sem úrskurðaðir hafa verið í gæsluvarðhald í tengslum við rannsókn lögreglu á morðinu á Albananum Armando Bequiri í Rauðagerði þann 13. febrúar. Samkvæmt heimildum DV er maðurinn sem grunaður er um að hafa skotið Armando einnig albanskur. Meint aðkoma Antons að málinu hefur enn ekki verið staðfest af yfirvöldum.
Anton hefur lengi verið orðaður við undirheima landsins og mikið var um hann fjallað í fjölmiðlum í tengslum við lekamálið svokallaða. Var þá gögnum um samvinnu hans við lögregluyfirvöld og upplýsingagjöf lekið til fjölmiðla. Var Anton í kjölfarið sagður hafa einangrast í undirheimunum og að lokum hafi hann farið í felur.
Anton Kristinn, betur þekktur sem Toni, var í tvígang tekinn sérstaklega fyrir af skattayfirvöldum í skattarannsókn. Fyrst á árunum 2007 og 2008, og svo aftur árin 2012 og 2013. Þetta kemur fram í nýrri frétt Stundarinnar um Anton. Anton hefur verið fyrirferðarmikill athafnamaður á undanförnum árum og hafa fasteignaviðskipti hans meðal annars vakið athygli. Meðal annars keypti hann nýverið stærðarinnar einbýlishús við Haukanes á Arnarnesi í Garðabæ og reif húsið til að rýma fyrir nýju og stærra húsi.
Húsið keypti Anton af Rasmusi Rojkjaer, fyrrverandi forstjóra Alvotech í byrjun síðasta árs, en áður hafði Anton selt 655 fermetra einbýlishús við Frjóakur. Brunabótamat hússins við Frjóakur er rúmar 227 milljónir.
Afsalið af húsinu við Haukanes fékk Anton þann 14. apríl 2020. Sex vikum síðar samþykkti bæjarráð Garðabæjar afgreiðslu byggingafulltrúa bæjarins á umsókn Antons um leyfi fyrir endurbyggingu og stækkun einbýlishússins að Haukanesi 24. Ljóst er að um mikla stækkun er að ræða, en flatarmál hússins sem Anton er nú að reisa á lóðinni er 621 fermetri, samkvæmt byggingalýsingu. Lóðin sjálf er heldur ekki af síðri endanum enda rétt tæpir 1.500 fermetrar, á Arnarnesi með útsýni út Arnarnesvoginn, yfir á Bessastaðanes, vesturbæ Kópavogs og út sjálfan Skerjafjörðinn.
Umfangsmikil fasteignaumsvif Antons og dýr lífsstíll hafa valdið mörgum heilabrotum enda uppruni fjármagnsins flestum óljós. Hefur sá óljósi uppruni ýtt undir sögusagnir um að auður Antons hafi verið fenginn með ólögmætum hætti. Þessar sögusagnir mögnuðust svo upp þegar fréttir bárust af því að Anton Kristinn hefði verið handtekinn vegna rannsóknar lögreglu á morðinu á Armando í Rauðagerði í síðasta mánuði.
Þessar sögusagnir urðu meðal annars tilefni skrifa Árna Þórs Sigmundssonar, fyrrverandi aðstoðaryfirlögregluþjóns sem hann birti á Facebook síðu sinni og DV sagði frá. Sagði Árni þar að umhugsunarvert væri að einstaklingur sem orðaður væri við „ýmislegt, æði misjafnt,“ og hefði „auðgast gífurlega“ gæti ekki bent á uppruna auðs síns. Árni skrifar áfram:
Á þetta hefur ítrekað verið bent bæði af almenningi og ekki síst af þeim lögreglumönnum sem vinna að þessum málaflokki, af heiðarleika, – heiðarlegum lögreglumönnum – en hvorki æðstu stjórnendur fíkniefnarannsókna eða skattayfirvöld hafa sinnt frumkvæðisskyldu til að kanna málið frekar.
Fullkomið rannsóknarefni!
Í dag er viðkomandi kallaður “athafnamaður.”
Meðal sögusagna sem rekið hafa á fjörur ritstjórnar DV eru að Anton sé nú undir rannsókn vegna ætlaðra skattalagabrota, að lögreglan hafi fundið milljónir í seðlum í óbyggðu húsi Antons við Haukanes og að hundruð milljóna, ef ekki milljarðar, hafi verið kyrrsettir af yfirvöldum. Ekkert af þessu á við rök að styðjast að því er hann veit, segir Steinbergur Finnbogason, lögmaður Antons, í samtali við blaðamann DV.
Steinbergur vildi ekki tjá sig um önnur mál er vörðuðu rannsóknina.