Jón Ívar Einarsson, prófessor við Harvard-háskóla í Boston, lýsti þeirri skoðun í grein í Morgunblaðinu í dag að æskilegt væri að Íslendingar færu að dæmi Breta og lengdu bilið á milli fyrstu og annarrar bólusetningar upp í þrjá mánuði.
Jón segir að ekki sé siðferðislega verjandi að halda áfram með óbreytt bólusetningarplan. Með því að lengja tímann milli fyrstu og annarrar bólusetningar sé hægt að bólusetja miklu fleiri fyrr. Fyrri bólusetning veiti mikla vörn en seinni skammturinn auki verndina gegn veirunni ekki mikið. Þeir sem sýkist eftir fyrri bólusetningu fái auk þess yfirleitt væg einkenni og veikist sjaldnast alvarlega.
Fréttablaðið bar þessar röksemdir undir Þórólf Guðnason sóttvarnalækni í dag og tók hann fálega í þær. „Menn geta haft allskonar mismunandi skoðanir á þessu. Þetta er mikilvægt í löndum þar sem útbreiðslan er mikil og faraldurinn er á flugi. Ég held að þetta sé ekki eins mikilvægt hjá okkur þar sem nánast eru engin smit,“ segir Þórólfur.
Þórólfur bendir á að eftir fyrstu bólusetningu geti fólk áfram sýkst af veirunni og dreift henni áfram. Því sé samfélagslega verndin af fyrri bólusetningu ekki nægilega mikil.
„…því held ég að það sé mikilvægt að ná fullkominni vörn hjá fólki eins og hægt er og það getum við gert með svona fá innanlandssmit,“ segir Þórólfur ennfremur.