Frá því á miðnætti og fram yfir hádegi í dag hafa mælst tæplega 1.500 skjálftar á Reykjanesskaga. Stærsti skjálftinn mældist kl. 1:31 í nótt en hann var 4,9 að stærð, um 2,6 km suðvestan við Keili. Í dag hafa mælst 18 skjálftar að stærð 3,0 eða stærri. Sá síðasti kl.12:12, að stærð 4,1, 3,3 km suðvestan við Keili.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands. Þar er rifjað upp að jarðskjálftahrinan hafi byrjað þann 24. febrúar með skjálfta að stærð 5,7 og öðrum upp á 5,0. Þremur dögum síðar varð skjálfti upp á 5,2.
Að sögn Veðurstofunnar eru svona hrinur ekki einsdæmi á þessu svæði. Árið 1933 mældust skjálftar upp á 4,9 og 5,9 við Fagradalsfjall. Urðu þá einhverjar skemmdir á húsum.
Áður hefur komið fram að árið 1929 varð skjálfti að stærð 6,2 í Brennisteinsfjöllum og gætti hans töluvert í Reykjavík.
Vísindamenn telja ekki útilokað að þessari hrinu ljúki með stórum skjálfta, jafnvel upp á 6,5. Ljóst er að íbúar á Suðurnesjum og jafnvel á höfuðborgarsvæðinu þurfa að gera ráðstafanir vegna möguleikans á svo stórum skjálfta. Mikilvægasta ráðstöfunin er sú að hafa ekki þunga muni lausa fyrir ofan höfuðhæð í íbúðarhúsnæði.Í svo stórum skjálfta gætu rúður brotnað í húsnæði nálægt upptökum skjálftans.