Óhætt er að segja að aukinnar bjartsýni virðist gæta í samfélaginu öllu um þessar mundir. Ritstjóri Fréttablaðsins blés von í brjóst þjóðarinnar í áhrifamiklum leiðara Fréttablaðsins þessa helgina og vitnaði meðal annars í frétt Fréttablaðsins um aukinn áhuga á ferðalögum til Íslands. Sagði Birna Ósk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri sölusviðs Icelandair, í þeirri frétt að lítil, en áþreifanleg teikn væri á lofti um bjartari tíð síðsumars og í haust í ferðaþjónustunni.
Þá sagði Morgunblaðið frá því í gær að Íslandsstofa væri nú í óða önn að undirbúa markaðssókn í Bretlandi. Sagði þar að horft væri til fyrirhugaðra tilslakana á landamærunum og að Ferðamálstofa reiknaði með allt að milljón erlendra ferðamanna í ár.
DV tók Jón Þór Þorvaldsson, formann Félags íslenskra atvinnuflugmanna, á tal og bar auknar bjartsýnisraddir undir hann. Aðspurður hvort hann yrði var við slíkt hið sama í sínum störfum svaraði Jón ákveðinn: „Já, algjörlega.“
„Við erum til dæmis að sjá að flug í Bandaríkjunum er að aukast mjög mikið. Þessi félög sem eru að fljúga millilandaflug þar í landi er nú að koma þessu af stað á ný,“ sagði Jón Þór. „Við sjáum það í kortunum að það lifni við með vorinu og sumrinu.“
Aðeins eru rétt rúmlega 70 flugmenn að störfum hjá Icelandair um þessar mundir en voru þegar mest lét á fimmta hundrað. 421 flugmanni var sagt upp í lok apríl í stærstu hópuppsögn Íslandssögunnar. Icelandair lét þá rúmlega tvö þúsund starfsmenn sína fjúka. Sumar uppsagnirnar gengu til baka.
Við tóku miklar kjaradeilur milli Icelandair, flugmanna sinna, flugfreyja og flugvirkja sem var forsenda vel lukkaðs hlutafjárútboðs síðasta haust.
Jón Þór segir talsvert meiri áherslu hafa verið á það slæma undanfarna mánuði, og að kominn sé tími á hið andstæða. „Þetta er orðið gott af þessu,“ sagði Jón við blaðamann DV.
Ísland er enn eina „græna landið“ á korti Evrópusambandsins yfir Covid-19 smitstuðla. Í vikunni bárust þó þær fréttir að um fimmtungur Breta hefur nú verið bólusettur, og eiga Bandaríkjamenn stutt eftir í þau tímamót einnig.
Þá geta Íslendingar nú ferðast til Grænlands án þess að þurfa að sæta sóttkví við heimkomu, og er það í fyrsta sinn frá því síðasta haust sem eitthvað erlent ríki er undanþegið þeim kröfum.