Félag íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) hefur stefnt Samtökum atvinnulífsins (SA) og Bláfugli fyrir Félagsdóm.
Fragtflugfélagið Bláfugl sagði upp ellefu flugmönnum í desember í hagræðingarskyni. Í kjölfarið greindi ASÍ frá því að Bláfugl nýtti sér þjónustu starfsmannaleigna og var því haldið fram að Bláfugl gerði slíkt til að komast upp með lægri launagreiðslur.
FÍA hefur nú höfðað mál fyrir Félagsdómi varðandi meintar ólögmætar uppsagnir flugmanna Bláfugls sem starfa á kjarasamningi við FÍA. Eins er málið til skoðunar hjá Vinnumálastofnun.
Í fréttatilkynningu segir FÍA að málið hafi vakið mikinn ugg víða og hafi danskir og norskir fjölmiðlar fjallað um málið.
FÍA segir stöðuna grafalvarleg.
„Enda gróflega vegið að lögum og reglum íslensks vinnumarkaðar af hálfu Bláfugls og SA, sem fer með samningsumboðið fyrir hönd Bláfugls,“ segir í tilkynningu.
FÍA segir niðurstöðu Félagsdóms koma til með að skapa mikilvægt fordæmi fyrir því hvort heimilt sé að segja upp launafólki sem starfi eftir kjarasamningi og ráða inn gerviverktaka í staðinn á meira en helmingi lægri launum. Eins hvort heimilt sé að ráða inn gerviverktaka til að ganga inn í störf þeirra sem eru í löglega boðuðu verkfalli.
Í tilkynningu segir enn fremur:
„Undir lok síðasta árs var öllum flugmönnum Bláfugls sem eru í stéttarfélagi sagt upp störfum, í miðjum kjaraviðræðum, og í framhaldi af því tilkynnti flugfélagið um að framvegis muni það einungis ráða „sjálfstætt starfandi flugmenn,“ með öðrum orðum gerviverktaka. Flugmaður sem starfar fyrir flugrekanda getur í eðli sínu ekki starfað sem verktaki þar sem hann uppfyllir ekki skilyrði um verktöku.“
Telur FÍA að ef athæfi Bláfugls verði látið óátalið af yfirvöldum megi draga þá ályktun að heimilt sé að segja upp launafólki landsins sem starfi á grundvelli kjarasamninga og ráða inn gerviverktaka í þeirra stað til að lækka laun verulega og svipta launafólk áunnum réttindum á borð við veikindarétt og orlof.