Jarðskjálftahrinan hefur haldið áfram síðan hún hófst í gær en margir fundu fyrir nokkuð snörpum skjálfta nú rétt eftir klukkan 20 í kvöld. Samkvæmt Veðurstofunni var skjálftinn yfir 4,3 að stærð samkvæmt bráðabirgðatölum.
Á meðal þeirra sem fundu fyrir skjálftanum voru keppendur og stjórnendur Gettu betur en þau fundu fyrir jarðskjálfta í beinni útsendingu frá viðureign Verzlunarskólans og Menntaskólans við Hamrahlíð í kvöld. Jarðskjálftinn sem liðin og stjórnendurnir fundu fyrir átti sér þó stað á meðan þau voru ekki í mynd þar sem Menntaskólinn við Hamrahlíð var að sýna tónlistaratriði sitt þegar skjálftinn sem um ræðir átti sér stað.
„Við erum að finna fyrir þessum skjálftum,“ sagði Kristjana Arnarsdóttir, spyrill í Gettu betur, eftir að tónlistaratriði MH lauk. „Já við fundum fyrir skjálfta hér en þú hélst ótrauð áfram eins og fagmanneskjan sem þú ert,“ sagði Laufey Haraldsdóttir, einn dómara í Gettu betur, í kjölfarið. „Það er svolítið sérstakt, svona í beinni útsendingu að fá jarðskjálfta. Funduði fyrir þessu krakkar?“ spurði Kristjana svo liðin sem svöruðu bæði játandi. „Það eru allir klárir í að halda áfram reikna ég með, nema einhver hreyfi við mótmælum,“ sagði hún svo og las upp næstu spurningu eins og ekkert hefði í skorist.