Morgunblaðið hefur þetta eftir honum í dag. Haft er eftir Páli að þetta sé í fyrsta sinn sem svo mikil umbrot hafi sést á þessu svæði á svo skömmum tíma. „Þetta er allt miklu snarpara en við höfum séð áður,“ sagði hann.
Í kjölfar skjálfta upp á 5,7 klukkan 10.05 í gærmorgun fylgdu margir kröftugir skjálftar. Þetta voru bæði eftirskjálftar og gikkskjálftar að sögn Páls. Svipað hafi gerst í október síðastliðnum þegar stór skjálfti varð við Núpshlíðarháls.
Sú jarðskjálftavirkni sem hófst á Reykjanesskaga í desember 2019 hefur náð austur að Kleifarvatni en Páll sagði að svo virðist sem þar sé einhver fyrirstaða á flekaskilunum og því hafi virknin ekki færst austar en hún hefur teygt sig í vesturátt og út í sjó við Reykjanes og út á Reykjaneshrygg.
Páll sagði að austan við Kleifarvatn séu Brennisteinsfjöll og Hengilssvæðið þar sem sterkir skjálftar hafa átt upptök sín í gegnum tíðina. Sagði hann hugsanlegt að jarðskjálftavirknin teygi sig áfram í austurátt. „Það er ómögulegt að segja fyrir um það með einhverri vissu en fólk þarf að vera viðbúið öllu,“ sagði hann.