Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag Alexander Feyki Heiðarsson í fimmtán mánaða fangelsi, þar af 12 skilorðsbundna til tveggja ára. Alexander var ákærður af Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og spannaði ákæran einar fjórar blaðsíður í ellefu liðum. Alexander játaði öll brot sín skýlaust.
Af lestri ákærunnar má greina röð afbrota sem virðist ekki hafa lokið fyrr en Alexander var hnepptur í gæsluvarðhald haustið 2020.
Í október 2018 braust Alexander inn í íbúð í Reykjavík og stal þaðan meðal annars tískuúlpum, hlaupahjólum, snyrtitösku, farsíma, herrajakka og ferðatösku með jólaskrauti. Í dómnum segir að þýfið hafu fundist í hitakompu húss Embættis Landlæknis við Barónsstíg í Reykjavík, þar sem Alexander og félagi hans földu þýfið.
Tæpu ári síðar, í ágúst 2019, braust Alexander inn í bifreið í Reykjavík og stal munum samtals að verðmæti 345.900 krónum. Þann leik lék hann svo eftir í desember það sama ár.
Í febrúar í fyrra fór hann ásamt félaga inn í geymslur fjölbýlishúss og stal ýmsum munum, samtals að verðmæti rétt tæpra þriggja milljóna.
Alexander er þá sakfelldur fyrir að hafa í þrígang stolið eða reynt að stela mótorhjóli um alla Reykjavíkurborg. Í eitt skiptið kom eigandi hjólsins að Alexander og stöðvaði þjófnaðinn.
Loks mun Alexander hafa slegið mann í höfuð, bak og hendur með „járnkeðju í plasthólki,“ með þeim afleiðingum að hann hlaut mikla áverka á líkama sinn.
Þann 7. ágúst fór Alexander enn eina ferðina í leyfisleysi inn í geymslur og bifreiðar í bílakjallara húss í Reykjavík. Höfðu þeir á brott með sér muni að verðmæti rúmra tveggja milljóna. Þennan sama mánuð fór hann í heimildarleysi inn í geymslu í Reykjavík þar sem hann var handtekinn. Við líkamsleit af því tilefni fann lögregla hníf á Alexander, og vann hann sér inn ákæru vegna brota á vopnalögum fyrir vikið.
Í dómnum er það tiltekið að Alexander hefur sex sinnum hlotið dóm og einu sinni gengist undir lögreglustjórasátt. Alexander er fæddur árið 1992. Síðast var Alexander dæmdur í september 2020, fyrir um það bil hálfu ári, fyrir þjófnað og önnur sérrefsilagabrot. Var honum þá gerð refsing sem var hegningarauki við dóm sem hann fékk 6. maí í fyrra fyrir það sama. Með dóminum í maí rauf Alexander skilorð sem hann hlaut í dómi í desember 2019. Þetta er því fjórði dómurinn sem fellur yfir Alexander á 15 mánuðum.
Alexander hlaut nú, sem fyrr sagði, fimmtán mánaða dóm og eru þrír af þeim óskilorðsbundnir. Alexander sætti gæsluvarðhaldi í rétt rúma þrjá mánuði í lok árs 2020 vegna endurtekinna afbrota sinna, og koma þeir mánuðir til frádráttar frá refsingunni og er því ekki að sjá annað en að Alexander hafi þegar lokið afplánun dómsins nú. Hann er þó áfram á skilorði.