Áhugaverður dómur féll í Héraðsdómi Suðurlands í morgun þar sem Yu Fan ferðir voru sýknaðar af ákæru um að hafa brotið lög um farþegaflutninga og farmflutninga á landi. Ákærði undi ekki sektardómi og því fór málið fyrir héraðsdóm með ákæru frá Lögreglustjóranum á Suðurlandi.
DV hefur dóminn undir höndum en atvikið átti sér stað þann 11. janúar árið 2020. Lögregla var þá við umferðareftirlit við Seljalandsfoss í Rangárþingi eystra og ræddi við ökumann lítils hópferðabíls í eigu Yu Fan ferða. Kona sem ók bílnum framvísaði ökuskírteini og ökuritaskífu og reyndust þau gögn vera í lagi. Samkvæmt framburði lögreglu gat hún ekki framvísað rekstrarleyfi en hafði samband við eiganda ferðaþjónustunnar og fékk frá henni mynd af rekstrarleyfinu. Segja lögregluþjónarnir að samkvæmt myndinni hafi rekstrarleyfið verið útrunnið fyrir meira en ári. Segir jafnframt í gögnum lögreglu að bílstjórinn hafi sagt að hún væri að komu frá Svörtu fjöru með fjögurra manna hóp með viðkomu hjá Seljalandsfossi og væri ferðinni heitið til Reykjavíkur. Lögregla segir að hún hafi sagt að ferðin væri skipulögð og seld á vegum fyrirtækisins. Í dómnum segir að í gögnum málsins sé ekki að finna upplýsingar um farþegana í bílnum og ekki liggur fyrir hvort aflað hafi verið upplýsinga frá þeim um gjaldtöku fyrir ferðina.
Bílstjórinn í ferðinni er systir eiganda fyrirtækisins en samkvæmt vitnisburði eigandans hafði bíllinn ekki verið hreyfður í marga mánuði. Hafi hún beðið systur sína um að hreyfa bílinn af og til, versla í matinn og svo framvegis. Hún sagði ekki rétt að ferðamenn hefðu verið í ferðinni heldur hafi verið um að ræða kunningjafólk hennar sem hefði gist hjá henni. Hún sagði systur sína hafa haft samband við sig og spurt hvort hún gæti notað bílinn til að fara til Víkur með fólkið. Staðhæfði hún að ferðin hefði ekki verið gegn endurgjaldi.
Eigandinn sagði að systir hennar starfaði fyrir fyrirtækið þegar einhverjir ferðamenn hefðu verið fyrir hendi en um fjölskyldufyrirtæki væri að ræða. Segði hún að systir sín hafi sagt sér að lögreglumennirnir hafi ekki spurt sig hvort um farþegarnir væru ferðamenn.
Í niðurstöðu dómsins kom fram að óumdeilt væri að rekstrarleyfi til fólksflutninga gegn gjaldi hafi verið útrunnið. Hins vegar hefði lögregla átt að kanna hjá farþegum hvort þeir hefðu greitt fyrir ferðina. Bíllinn taki 12 manns en aðeins hafi verið fjórir farþegar og með hliðsjón af þeim kostnaði sem slík ferð hefði óhjákvæmlega haft í för með sér hefði verið rétt að kanna þetta sérstaklega hjá farþegunum.
Með hliðsjón af þessu taldi dómurinn engan veginn sannað að með þessum akstri hefði verið brotið gegn lögum um farþegaflutninga og farmflutninga á landi.
Lögmaður ferðaþjónustufyrirtækisins er Sævar Þór Jónsson. DV ræddi við hann og er hann þungorður í garð lögreglu varðandi þetta mál:
„Þetta mál snýst um sektarmeðferð og það er nú yfirleitt þannig að fólk fer ekki að gera stórmál úr slíku nema það telji verulega á sér brotið. Í þessu máli kristallast það sem ég hef því miður séð áður í vinnubrögðum lögreglu úti á landi, að málum er ekki fylgt nægilega vel eftir.“
Sævar segir augljóst að lögregla hafi alls ekki rannsakað málið nægilega vel á vettvangi:
„Þeir horfa inn í bíl þar sem eru kínverskir túristar og draga ályktarnir. Lögreglan dró bara sínar ályktanir án þess að kanna málið frekar og spyrja fólkið. Ég velti því fyrir mér í öllum þeim túrisma sem hér hefur verið hvort menn séu ekki nægilega undirbúnir til að taka skýrslu af útlendingum,“ segir Sævar og telur framgöngu lögreglu í málinu vera ámælisverða:
„Þetta er ámælisvert og sérstakt í nútímanum að lögregla skuli ekki sinna rannsóknarskyldu sinni. Það er alvarlegt.“