Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, ræddi stöðuna og árangurinn við þýsku fréttastofuna dpa. „Barátta okkar við faraldurinn hefur gengið betur en við áttum von á,“ sagði hún.
Ísland hefur oft verið borið saman við Nýja-Sjáland en þar hefur einnig gengið vel að takast á við faraldurinn en landið er eyríki eins og Ísland og þar er hlutfall smita á hverja 100.000 íbúa raunar lægra en hér á landi. Eflaust hafa bæði löndin notið góðs af staðsetningu sinni úti í miðju hafi en Katrín benti á nokkra aðra þætti sem skýra góðan árangur hér á landi.
„Þetta er lykillinn að árangri: Auðvelt aðgengi að sýnatöku, smitrakning og aðferðafræði byggð á vísindum,“ sagði hún.
Að auki bendir dpa á að strangar reglur gildi á landamærunum þar sem fólk verði að framvísa niðurstöðu kórónuveiruprófs sem ekki mega vera eldri en 72 klukkustund. Það þurfi einnig að fara í sýnatöku á landamærunum, síðan í sóttkví og aftur í sýnatöku.