Kristín Jónsdóttir, fagstjóri náttúruvárvöktunar á Veðurstofu Íslands, var viðmælandi RÚV í aukafréttatíma í hádeginu. Stórir jarðskjálftar fundust víða um suðvesturhorn landsins í morgun en upptök skjálftanna voru á milli Kleifarvatns og Grindavíkurvegar.
Kristín segir ekkert benda til eldsumbrota en samt sem áður var fólk sent til að mæla gas sem gæti verið merki um kvikugos. Engir skjálftar hafa mælst á svæðinu frá Kleifarvatni að Bláfjöllum allt þetta ár.
„Það gæti verið til marks um að það svæði sé hreinlega læst og að það brotni ekki nema í stærri skjálfta. Þar vitum við að hafa orðið stórir skjálftar, allt að 6,5. Við verðum að vera undir það búin, því miður, að við getum fengið jafnvel stærri skjálfta en við höfum verið að upplifa núna,“ segir Kristín en Veðurstofan hefur verið að funda með Almannavörnum sem þau telja að á meðan þessi óstöðugleiki er í gangi séu auknar líkur á því að það verði enn þá fleiri og jafnvel stærri skjálftar.
„Það er mikil virkni á þessu svæði, við þekkjum það alveg, en ég hef ekki áður upplifað svona kröftuga hrinu eða fundið svona marga skjálfta á stuttum tíma hérna í byggingunni, þannig að þetta er óvenjulegt,“ segir Kristín.