Guðrún Helga Sigurðardóttir, rithöfundur, leiðsögumaður og landsþekktur blaðamaður um árabil, er látin, 57 ára að aldri, eftir langvarandi veikindi.
Guðrúnar var minnst í vandaðri grein á vef Mannlífs á mánudag. Hún var atkvæðamikill blaðamaður á DV, Fréttablaðinu og ýmsum öðrum fjölmiðlum. Um skeið var hún formaður Félags fjölmiðlakvenna. Árið 2003 var hún tilnefnd til blaðamannaverðlaunanna í flokknum rannsóknarblaðamennska ársins, vegna skrifa sinna fyrir Frjálsa verslun. Hún sendi einnig frá sér vinsæla bók fyrir erlenda ferðamenn um hefðbundna íslenska matargerð.
Guðrún sinnti einnig leiðsögustörfum af miklum krafti og naut mikilla vinsælda og virðingar fyrir þau störf en hún var ástríðufull útivistarmanneskja.
Dánardagur Guðrúnar Helgu Sigurðardóttur var laugardagurinn 20. febrúar. DV sendir ættingum og vinum hennar innilegar samúðarkveðjur.