Langvarandi og viðamiklar ritdeilur hafa átt sér stað um heimildarmyndina Hækkum rána, sem fjallar um körfuboltalið barnungra stúlkna sem mótmæltu því með eftirminnilegum hætti við verðlaunaafhendingu eftir Íslandsmót árið 2019 að hafa ekki fengið að etja kappi við stráka á mótinu.
Þjálfari liðsins, Brynjar Karl Sigurðsson, beitti þar eigin aðferðafræði þar sem körfubolti varð að tæki til að valdefla stúlkur, auka sjálfstraust þeirra og gera þær hæfari til að takast á við lífið.
Umtöluðustu skrifin í umræðunni um myndin eru líklega grein sem Viðar Halldórsson, prófessor í félagsfræði, birti á Kjarnanum. Í sem allra stystu máli sagði Viðar þar að markmiðið, að valdefla stúlkur, hafi verið gott, en aðferðir Brynjars hafi verið mjög vafasamar, hann hafi beitt úreltum þjálfunaraðferðum sem hafi í raun falið í sér afreksvæðingu barnaíþrótta, stefnu sem valdi því að þeir lakari heltist úr lestinni og álagsmeiðsli verði vandamál meðal barnanna.
Þessi ályktun Viðars hefur vakið harða gagnrýni. Þjálfarinn Brynjar Karl Sigurðsson segir að prófessorinn hafi ekki unnið heimavinnuna sína því fráleitt sé að hann hafi fylgt afreksvæðingu við þjálfunina. Í viðtali við einn fjölmiðil sagði Brynjar að hann myndi þjálfa manneskju með staurfót í körfubolta svo lengi sem viðkomandi væri tilbúin að leggja sig fram. Hins vegar hafi verið fylgt svokallaðri eljustefnu þar sem iðkendum var skipt niður eftir ástríðu þeirra og vilja til að leggja á sig.
Foreldrar sem eiga dóttur í stúlku í körfuboltahópi Brynjars svöruðu Viðar og sögðu hann hafa gert mistök með grein sinni. Sú grein birtist einnig á Kjarnanum.
Hjónin lýsa þeim jákvæðu áhrifum sem þjálfun Brynjars hefur haft á dóttur þeirra og hafi hennar eflt hana á öðrum sviðum lífsins en bara körfubolta. Þau segja meðal annars:
„Áherslan var á að bæta sjálfa sig frekar en að einblína eingöngu á ytri árangur og lokaniðurstöðu eins og titla og verðlaunapeninga. Að hennar sögn var hún næstlélegust í upphafi en fann sig meira í körfunni af því Brynjar Karl bar virðingu fyrir þeim sem leggja sig fram óháð getu eða hæfileikum. Hún náði eftir þrotlausa vinnu að bæta sig. Sem foreldrar tókum við eftir hröðum bætingum, ekki í körfubolta, heldur í skóla og samskiptum en hún hafði verið lítil í sér áður og látið aðra krakka stjórna sér um of. Í kjölfarið hefur hún axlað meiri ábyrgð á eigin námi þar sem venjur úr körfunni heimfærast á önnur verkefni í lífinu.“
Foreldrarnir telja að grein Viðars uppfylli ekki kröfur sem gera eigi til nálgunar af hálfu fræðimanns, þar sem hann hafi augljóslega ekki aflað sér gagna.
„Stóll er stóll, þó að hann sé notaður sem trappa,“ segir Viðar í fyrirsögn nýrrar greinar sinnar um málið og endurtekur þau orð inni í textanum. Talið um eljustefnu sé aðeins orðaleikur, hún sé aðeins annað orð yfir þá afreksvæðingu barnaíþrótta sem Brynjar hafi gerst sekur um:
„Í fyrri grein minni um efnið útskýrði ég í lengra máli að um væri að ræða skýrt dæmi um óæskilega afreksvæðingu barnaíþrótta. Þjálfarinn og stuðningsfólk hans hafa í kjölfarið svarað því til að alls ekki sé um afreksvæðingu að ræða, án þess þó að hrekja þær forsendur sérstaklega. Þess í stað segja þau að það sé fyrst og fremst verið að framfylgja svokallaðri „eljustefnu“ en ekki „afreksstefnu“. Þetta er bara leikur að orðum og hugtökum. Við getum kallað hluti hvaða nafni sem okkur sýnist, það breytir þó ekki eðli hlutanna. Stóll er alltaf stóll, þó svo hann sé notaður sem trappa. Afreksvæðing er afreksvæðing, þó hún sé í þessu tilfelli kölluð „eljustefna“.“
Viðar rökstyður enn fremur ítrekaðar fullyrðingar sínar um að aðferðir Brynjars flokkist undir afreksstefnu:
„Það sem kom fram í myndinni, auk þeirra upplýsinga sem ég hef fengið hjá fjölda fólks á undanförnum dögum, sýnir svo ekki er um villst að um afreksvæðingu barnastarfs var að ræða. Afreksvæðing íþrótta byggir á snemmbærri sérhæfingu í ákveðinni íþrótt, óhóflega miklu magni æfinga fyrir unga og óharðnaða líkama, útilokun ákveðinna iðkenda vegna skorts á færni, áhuga eða annarra bjarga eins og tíma eða fjármagni, og pressu á framfarir og árangur iðkenda, svo eitthvað sé nefnt, með það að leiðarljósi að móta afreksfólk framtíðarinnar…“
Viðar bendir enn fremur á að þjálfunaraðferðir séu ekki einkamál hvers þjálfara en Brynjar hafi fylgt eigin, heimasmíðuðum aðferðum, sem hann segist ekki einu sinni treysta öðrum þjálfurum til að beita. Þessar aðferðir gangi síðan gegn því sem vísindasamfélagið viðurkenni. Viðar skefur ekki utan af því frekar en í fyrri greininni:
„Þessar aðferðir eru því fjarri lagi yfir gagnrýni hafnar og í raun er mikið umhugsunarefni að þjálfarinn hafi, jafn lengi og raun bar vitni, fengið að beita þessum umdeildu aðferðum í sínu starfi. Með öðrum orðum þá er þjálfarinn í raun búinn að upplýsa að hann hafi verið að beita tilraunastarfsemi á börn í íþróttum, tilraunastarfsemi sem hvorki hefur verið prófuð, sannreynd eða fengið viðurkenningu óháðra og ábyrgra aðila. Hér vakna ótal spurningar um ábyrgð þjálfarans sem og ábyrgð íþróttahreyfingarinnar.“
Telur Viðar raunar að þetta framtak Brynjars sé tilefni til að efla eftirlit með þjálfun barna í íþróttum og tryggja að þau fái rétta og góða þjálfun. Segist hann jafnframt hafa fengið efasemdir sínar um aðferðir Brynjars enn frekar staðfestar eftir þær umræður sem hafa átt sér stað um myndina „Hækkum rána“ undanfarið. Hann stendur því við gagnrýni sína en viðurkennir þó að frammistaða stúlknanna undir stjórn Brynjars sé aðdáunarverð:
„Þessar upplýsingar staðfesta réttmæti upphaflegu gagnrýni minnar á þjálfunaraðferðir stúlknanna. Ég stend því að fullu við fyrri ummæli mín um að allt bendi til þess að skýr og óæskileg afreksstefna hafi verið rekin í þjálfun þessara stúlkna, þó svo að hlutirnir hafi verið kallaðir öðrum nöfnum. Það breytir þó ekki því að stelpurnar í myndinni eru frábærar í körfubolta og ekki er annað hægt en að dáðst að hugrekki þeirra í þeirri baráttu sem þær heyja og í þeirri sögu sem sögð er í myndinni. En, stelpurnar sem heltust úr lestinni á leiðinni eða fengu ekki að vera með eru líka frábærar og það er ekki við þær að sakast að hafa lent í aðstæðum sem voru bæði óeðlilegar og ósanngjarnar, og að þeirra saga hafi ekki verið sögð. Ég vona bara að þær láti ekki deigan síga. Þeirra tími kemur síðar.“