Karlmaður á fimmtugsaldri var í dag úrskurðaður í sex daga gæsluvarðhald í Héraðsdómi Reykjavíkur. Maðurinn er talinn tengjast morðinu á Armando Beqirai um síðustu helgi, í Rauðagerðismálinu svokallaða. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Þetta er gert á grundvelli rannsóknarhagsmuna að kröfu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í þágu rannsóknar hennar á morðinu.
Fram kemur í tilkynningu að maðurinn sé sá níundi sem er úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna málsins og ekki sé hægt að veita frekari upplýsingar um það að svo stöddu.
Líkt og fjölmiðlar hafa fjallað um í dag telur lögregla albanskan karlmann bera ábyrgð á morðinu, en sá gaf sig upp til lögreglu í vikunni.
Sjá einnig: Maður sem grunaður er um morðið á Armando gaf sig fram við lögreglu