Lögreglan telur sig vita hver myrti Albanann Armando Beqiri, síðla síðasta laugardagskvöld, en hann var skotinn til bana fyrir utan heimili sitt í Rauðagerði. Armando lætur eftir sig íslenska konu og eitt barn, og átti von á öðru barni.
Skömmu eftir morðið á laugardagskvöld handtók lögreglan litháenskan mann og var hann úrskurðaður í gæsluvarðhald til dagsins í dag. Gæsluvarðhald hans var síðan ío dag framlengt til næsta miðvikudags.
Samkvæmt frétt RÚV sitja nú 8 í gæsluvarðhaldi vegna málsins. Þar af er einn Íslendingur, sem mun vera Anton Kristinn Þórarinsson, en annað fólk í gæsluvarðhaldi vegna málsins er frá Albaníu, Litháen, Eistlandi, Rúmeníu, Portúgal og Spáni. Sumt af þessu fólki er búsett á Íslandi en ekki allt.
Undanfarið hefur lögregla gert margar húsleitir vegna málsins og lagt hald á muni, til dæmis Range Rover jeppa í eigu Antons Kristins Þórarinssonar.
Sem fyrr segir telur lögregla sig vera með morðingjann í haldi en verið er að reyna að kortleggja hvort og hvernig aðrir tengist málinu og séu ef til vill vitorðsmenn.
Lögregla heldur þétt að sér spilunum og vill tryggja að upplýsingar um rannsóknina leki ekki út því það gæti spillt rannsókninni.