Fjölmiðlamaðurinn Egill Helgason er heldur betur ósáttur við Morgunblaðið í dag, en þar birtist grein eftir Gústaf Adolf Skúlason, smáfyrirtækjaeiganda, þar sem Egill er harðlega gagnrýndur.
Gústaf bendir á grein sem Egill skrifaði á Facebook þann 14. febrúar þar sem Egill fjallar um réttarfarskerfi Bandaríkjanna í kjölfar þess að fráfarandi Bandaríkjaforseti, Donald Trump, var sýknaður af ásökunum um brot í starfi.
„Lýsir þessi landskunni starfsmaður RÚV yfir persónulegum áhyggjum af þessu „refsileysi“ Bandaríkjanna. Með færslunni birtir hann mynd af gálga og snöru sem verður ekki öðru vísi skilin en sem tillaga hans að refsingu fyrir 45. forsetann svo áhyggjum hans sem opinbers starfsmanns RÚV linni.“
Gústaf kallar skrif Egils hatursorðræðu sem sé ekki forsvaranleg af hálfu starfsmanns opinbers hlutafélags á borð við RÚV.
„Endurspeglar Egill Helgason mögulega afstöðu stjórnar RÚV að hengja beri 45. forseta Bandaríkjanna?
Eða af hvaða tilefni er opinber starfsmaður RÚV að birta skoðun sína með slíkum hætti á samfélagsmiðlum?“
Egill Helgason gefur lítið fyrir þessa gagnrýni og svarar skrifunum í færslu á Facebook.
„Birtir Morgunblaðið hvaða rugl sem því berst? Þetta er eitthvað það vitlausasta sem ég hef lesið – að í lítilli færslu sem ég skrifaði um árásina á þinghúsið í Washington hafi ég hvatt til þess að fyrrverandi Bandaríkjaforseti yrði hengdur, sökum þess að með færslunni birti ég mynd af gálga sem stuðningsmenn Trumps reistu fyrir utan Capitol.
Ég meina það – hvílík della.“