Samkvæmt könnun MMR var áramótaskaupið 2020 það besta sem sést hefur yfir síðasta áratug að mati landsmanna.
85 prósent þátttakenda í könnun MMR sögðu að þeim hefði þótt skaupið gott og 64 prósent töldu það mjög gott. 21 prósent sögðu það frekar gott, 9 prósent bæði og, 3 prósent frekar slakt og 3 prósent mjög slakt.
Þetta eru bestu tölur sem skaupið hefur fengið í fjölda ára. Árið 2013 voru 81 prósent ánægðir með skaupið og svo 2017 voru 76 prósent ánægð.
Skaupið 2020 sló sérstaklega í gegn meðal kvenna en 89 prósent kvenna sögðu það frekar eða mjög gott samanborið við 81 prósent karla.
Ánægja mældist jafnframt meiri meðal svarenda 30 ára og eldri heldur en þeirra sem voru yngri en þrjátíu.
MMR könnuðu líka ánægju með skaupið út frá stjórnmálaskoðunum. Þar kom á daginn að skaupið lagðist best í stuðningsmenn VG, en 94 prósent þeirra sögðu skaupið mjög gott eða frekar gott. 88 prósent Samfylkingarmanna voru ánægðir og 87 prósent Sjálfstæðismanna. Minnst mældist ánægjan meðal Miðflokksmanna en aðeins 73 prósent þeirra sögðu skaupið hafa verið gott og 26 prósent sögðu það hafa verið frekar eða mjög slakt.