Útgerðarfyrirtækið Samherji hefur sent frá sér yfirlýsingu í kjölfar þess að RÚV lét fjarlægja myndband Samherja af Facebook. Myndbandið sem ber nafnið „Ekkert peningaþvætti í viðskiptum DNB og Samherja“ var birt fyrir tveimur dögum og er enn hægt að horfa á myndbandið á YouTube-síðu Samherja en myndbandið var birt í kjölfar þess að norski ríkissaksóknarinn komst að þeirri niðurstöðu að ekkert væri hæft í þeim ásökunum sem RÚV var með um viðskipti Samherja við bankann.
RÚV fékk myndbandið tekið niður á grundvelli brots á höfundarrétti en Samherji segist hafa greitt fyrir notkun á efninu og hafi alltaf gert það þegar þeir hafa notast við efni frá RÚV.
Í nóvember 2019 birti fréttaskýringaþátturinn Kveikur, sem sýndur er á RÚV, þátt um starfsemi Samherja í Namibíu. Í gögnum sem Kveikur fékk í hendurnar í gegnum WikiLeaks má finna skjöl sem benda til mútugreiðslna Samherja til namibískra valdamanna. Samherji hefur neitað öllum ásökunum en í kjölfar þáttarins steig forstjórinn, Þorsteinn Már Baldvinsson, til hliðar tímabundið.