„Lakasta frammistaða íslenska handknattleiksliðsins er staðreynd. Sæti númer 20. Algerlega óviðunandi niðurstaða og gegn henni finnast engar afsakanir.“
Svona hefst pistill sem húsasmíðameistarinn Jóhann L. Helgason skrifar en pistillinn birtist í Morgunblaðinu í dag og fjallar um gengi íslenska landsliðsins í handbolta. „Það hefur held ég aldrei eða sjaldan áður verið til efnilegri og stæðilegri hópur ungra leikmanna en sá sem sendur var til Kaíró nú í janúarmánuði síðastliðinn til að keppa fyrir hönd Íslands. Blandaður hópur hvað aldur varðar, margir atvinnumenn, reynsluboltar og aðrir frábærir úr ýmsum félögum á þröskuldi atvinnumennskunnar.“
Af skrifum Jóhanns að dæma er hann virkilega ósáttur með Guðmund Þórð Guðmundsson, landsliðsþjálfara Íslands. „Frábær hópur sem landsliðsþjálfaranum tókst ekki að gera að sigrandi klukkuverki. Það sem maður sá til þeirra og var mest áberandi var að allir voru þeir með góða skothæfileika; gátu nánast skorað úr hvaða færi sem gafst. Enginn hörgull á því,“ segir Jóhann og kemur með dæmi um slaka frammistöðu liðsins.
„Línuspil var afleitt á köflum, lítið um snöggar gólfsendingar, áttu í erfiðleikum með að gera usla í vörn andstæðinga, hraðinn ekki nægur. Hornamenn skiluðu sínu þegar þeir fengu boltann. Þetta virtist vera höfuðlaus her.“
„Að tapa fyrir þessu lélega liði Sviss er skandall“
Jóhann bendir á að skipstjóri sem ekki nær að veiða fisk sé snarlega settur í land og ber það saman við Guðmund. „Þjálfari sem kemur ekki liði sínu í fremstu röð á að fara. Þjálfari sem gerir lítið annað en að væla og er sífellt að leita að afsökunum eins og meiðslum, ungu liði, þreytu og þar fram eftir götunum yfir hinum laka árangri er auðvitað villuráfandi og úrræðalaus,“ segir hann.
Þá talar Jóhann um leikplan Guðmunds í leik Íslands gegn Sviss en Ísland tapaði leiknum með tveimur mörkum. „Það arfavitlausa plan sem Guðmundur Þ. lagði upp fyrir leikinn við Sviss er óskiljanlegt, leikmenn virtust bundnir einhverju óskiljanlegu leikkerfi og með blýklump í skónum, með bremsurnar fastar í algerlega skipulagslausum leik þar sem þjálfarinn gerði lítið annað en garga og góla af hliðarlínunni. Ekkert plan B eða C eins og sagt er. Að tapa fyrir þessu lélega liði Sviss er skandall.“
„Hvað segja menn við því?“
Að lokum veltir Jóhann því fyrir sér hvort þjálfarinn fylgi ekki liðinu. „Það er víst. Lið sem lendir í 20. sæti er því auðvitað með þjálfara sem er einnig í 20. sæti. Sem sagt: Afleit frammistaða þjálfara, sem hefur ekki náð nógu vel utan um lið sitt til að veita því léttleika í leik og fylla það sjálfstrausti,“ segir hann.
„Öll lið verða fyrir meiðslum, öll lið þarf að yngja upp jafnt og þétt, þetta er ekki neitt nýtt og ekki hafandi orð um. Danir léku veikir með magakveisu lengi vel en urðu samt heimsmeistarar! Hvað segja menn við því? Það var sorglegt að horfa upp á þennan glæsilega og efnilega hóp sem hefði getað náð langt ef kunnáttumenn hefðu verið að verki.“
Jóhann botnar pistilinn með því að ítreka skoðun sína á því að Guðmundur eigi að taka pokann sinn. „Það þarf að skipta alveg um í brúnni, og það sem fyrst, skipið fiskar ekki.“