fbpx
Fimmtudagur 06.febrúar 2025
Fréttir

Jóhann virkilega ósáttur með Guðmund – „Ger­ir lítið annað en að væla og er sí­fellt að leita að af­sök­un­um“

Máni Snær Þorláksson
Fimmtudaginn 18. febrúar 2021 10:55

Mynd/Samsett

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Lak­asta frammistaða ís­lenska hand­knatt­leiksliðsins er staðreynd. Sæti núm­er 20. Al­ger­lega óviðun­andi niðurstaða og gegn henni finn­ast eng­ar af­sak­an­ir.“

Svona hefst pistill sem húsasmíðameistarinn Jóhann L. Helgason skrifar en pistillinn birtist í Morgunblaðinu í dag og fjallar um gengi íslenska landsliðsins í handbolta. „Það hef­ur held ég aldrei eða sjald­an áður verið til efni­legri og stæðilegri hóp­ur ungra leikmanna en sá sem send­ur var til Kaíró nú í janúarmánuði síðastliðinn til að keppa fyr­ir hönd Íslands. Blandaður hóp­ur hvað ald­ur varðar, marg­ir at­vinnu­menn, reynsluboltar og aðrir frá­bær­ir úr ýms­um fé­lög­um á þrösk­uldi at­vinnu­mennsk­unn­ar.“

Af skrifum Jóhanns að dæma er hann virkilega ósáttur með Guðmund Þórð Guðmundsson, landsliðsþjálfara Íslands. „Frá­bær hóp­ur sem landsliðsþjálf­ar­an­um tókst ekki að gera að sigrandi klukku­verki. Það sem maður sá til þeirra og var mest áber­andi var að all­ir voru þeir með góða skot­hæfi­leika; gátu nán­ast skorað úr hvaða færi sem gafst. Eng­inn hörg­ull á því,“ segir Jóhann og kemur með dæmi um slaka frammistöðu liðsins.

„Línu­spil var af­leitt á köfl­um, lítið um snögg­ar gólf­send­ing­ar, áttu í erfiðleik­um með að gera usla í vörn and­stæðinga, hraðinn ekki næg­ur. Horna­menn skiluðu sínu þegar þeir fengu bolt­ann. Þetta virt­ist vera höfuðlaus her.“

„Að tapa fyr­ir þessu lé­lega liði Sviss er skandall“

Jóhann bendir á að skipstjóri sem ekki nær að veiða fisk sé snarlega settur í land og ber það saman við Guðmund. „Þjálf­ari sem kem­ur ekki liði sínu í fremstu röð á að fara. Þjálf­ari sem ger­ir lítið annað en að væla og er sí­fellt að leita að af­sök­un­um eins og meiðslum, ungu liði, þreytu og þar fram eft­ir göt­un­um yfir hinum laka ár­angri er auðvitað villuráfandi og úrræðalaus,“ segir hann.

Þá talar Jóhann um leikplan Guðmunds í leik Íslands gegn Sviss en Ísland tapaði leiknum með tveimur mörkum. „Það arfa­vit­lausa plan sem Guðmund­ur Þ. lagði upp fyr­ir leik­inn við Sviss er óskilj­an­legt, leik­menn virt­ust bundn­ir ein­hverju óskilj­an­legu leik­k­erfi og með blýklump í skón­um, með brems­urn­ar fast­ar í al­ger­lega skipu­lags­laus­um leik þar sem þjálf­ar­inn gerði lítið annað en garga og góla af hliðarlín­unni. Ekk­ert plan B eða C eins og sagt er. Að tapa fyr­ir þessu lé­lega liði Sviss er skandall.“

„Hvað segja menn við því?“

Að lokum veltir Jóhann því fyrir sér hvort þjálfarinn fylgi ekki liðinu. „Það er víst. Lið sem lend­ir í 20. sæti er því auðvitað með þjálf­ara sem er einnig í 20. sæti. Sem sagt: Af­leit frammistaða þjálf­ara, sem hef­ur ekki náð nógu vel utan um lið sitt til að veita því létt­leika í leik og fylla það sjálfs­trausti,“ segir hann.

„Öll lið verða fyr­ir meiðslum, öll lið þarf að yngja upp jafnt og þétt, þetta er ekki neitt nýtt og ekki haf­andi orð um. Dan­ir léku veik­ir með maga­k­veisu lengi vel en urðu samt heims­meist­ar­ar! Hvað segja menn við því? Það var sorg­legt að horfa upp á þenn­an glæsi­lega og efni­lega hóp sem hefði getað náð langt ef kunn­áttu­menn hefðu verið að verki.“

Jóhann botnar pistilinn með því að ítreka skoðun sína á því að Guðmundur eigi að taka pokann sinn. „Það þarf að skipta al­veg um í brúnni, og það sem fyrst, skipið fisk­ar ekki.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Björgunarsveitir víða að störfum og Vellirnir á floti

Björgunarsveitir víða að störfum og Vellirnir á floti
Fréttir
Í gær

Saklaus af kynferðisbroti en fær ekki hærri bætur

Saklaus af kynferðisbroti en fær ekki hærri bætur
Fréttir
Í gær

Sakar Ingu Sæland um hótanir í garð sjávarútvegsins

Sakar Ingu Sæland um hótanir í garð sjávarútvegsins
Fréttir
Í gær

Guðrún boðar til fundar – Er hún á leið í formanninn?

Guðrún boðar til fundar – Er hún á leið í formanninn?