fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fréttir

Það sem við vitum um Rauðagerðismorðið – Vikulangt gæsluvarðhald kært

Heimir Hannesson
Miðvikudaginn 17. febrúar 2021 10:25

Einn sakborninga í Rauðagerðismálinu leiddur út úr húsi Héraðsdóms Reykjavíkur mynd/Stefán

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Anton Kristinn Þórarinsson var í gær úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald vegna rannsóknar á manndrápi í Rauðagerði síðastliðið laugardagskvöld. Lögmaður Antons, Steinbergur Finnbogason, hefur kært úrskurðinn til Landsréttar.

Tekið skal fram að DV hefur hvorki fengið staðfest hvort Anton sé grunaður um aðild að morðinu, né á hvaða forsendum Anton var úrskurðaður í gæsluvarðhald.

Örfáum mínútum fyrir miðnætti á laugardagskvöld barst lögreglu tilkynning um að manni hafi verið ráðinn bani fyrir utan einbýlishús við Rauðagerði. Armando Beqiri hafði þá verið að koma heim til sín og lagt bíl  í bílastæði utan við hús sitt við götuna sem hann og eiginkona hans keyptu saman seint á síðasta ári. Hjónin voru nýlega flutt í húsið.  Armando var skotinn nokkrum skotum í innkeyrslunni fyrir utan húsið, og samkvæmt frétt Vísis í vikunni, að minnsta kosti einu sinni í höfuðið. Morðinu hefur verið lýst sem „hreinni aftöku.“

Armando var fæddur 16. febrúar 1988, og hefði því fagnað 33 ára afmælisdegi sínum með ófrískri eiginkonu sinni og barni þeirra í gær.

Grunsemdir um hljóðdeyfi

Armando starfaði hjá fyrirtæki sem heitir Top Guard ehf., en fyrirtækið sinnir dyravörslu og  annarskonar öryggisgæslu. Samkvæmt Credit Info eru eigendur fyrirtækisins þeir Vladimir Avramovic og Goran Kristján Stojanovic. Í fréttum DV fyrr í vikunni var Armando lýst af vinum og samstarfsmönnum sem harðduglegum, heiðarlegum, vingjarnlegum og traustum manni. Annar nágranni sagði þó að mikið hefði verið um grunsamlegar mannaferðir eftir að fjölskyldan flutti inn og að fólk hefði oft verið að koma og fara úr húsinu. Ekkert ónæði hefði þó verið af þeim mannaferðum.

Það vakti jafnframt athygli að enginn nágranni kannaðist við að hafa heyrt skothvelli. Var það sérstaklega grunsamlegt í ljósi frétta af því að mörgum skotum virðist hafa verið hleypt af. Vakti það grunsemdir um að skammbyssa með hljóðdeyfi hafi verið notuð.

Í tilkynningu lögreglu um málið í hádeginu daginn eftir morðið, sunnudaginn síðastliðinn, kom fram að karlmaður hefði verið handtekinn í Garðabæ vegna málsins og var hann síðar um kvöldið úrskurðaður í fjögurra daga gæsluvarðhald. Lengd gæsluvarðhaldsúrskurðsins vakti athygli, en fjögurra daga gæsluvarðhaldsúrskurðir heyra til algjörra undantekninga hvað morð mál varðar. Samkvæmt upplýsingum frá lögmanni sem DV ræddi við í gær gæti það bent til þess að lögreglu hafi skort sönnunargögn til að ná fram lengri úrskurði, eða að maðurinn sé í haldi vegna rannsóknarhagsmuna. Maðurinn er frá Litháen og er enn í gæsluvarðhaldi.

Frá Rauðagerði. mynd/Valli

Litháinn tengdur Antoni

Samkvæmt heimildum DV er sá maður tengdur Antoni, sem í gær var einnig úrskurðaður í gæsluvarðhald. Herma heimildir úr undirheimum Reykjavíkur að Anton hafi í kjölfar lekamálsins sem upp kom í janúar einangrast í undirheimunum og flutt inn menn frá Litháen til þess að starfa með sér og vernda sig gegn hugsanlegum ógnum vegna lekans. Í janúar fengu fjölmiðlar á Íslandi, meðal annars DV, nafnlausa gagnasendingu þar sem fram kom að Anton hefði veitt lögreglu upplýsingar í lengri tíma um ólöglegt athæfi einstaklinga í Reykjavík. Eins og gefur að skilja vakti það ekki mikla kátínu meðal kollega Antons í undirheimunum. Allt eru þetta eingöngu ásakanir og enginn verið sakfelldur í málinu þó rannsóknir hafi ítrekað farið fram og lögreglumenn kallaðir til skýrslatöku líkt og fram kemur í gögnunum.

Lögregla sagði svo á mánudaginn að hún leitaði að íslenskum karlmanni í tengslum við málið. Hávær orðrómur fór undir eins af stað um að umræddur karlmaður væri í raun umræddur Anton Kristinn.

Lögregla hefur alveg frá því að málið kom fyrst upp gefið litlar upplýsingar um málið. DV spurði lögreglu í gær hvort morðvopnið hefði fundist en lögregla sagðist ekki geta staðfest það. Þó var sagt frá því í öðrum fjölmiðlum í gær að svo væri ekki.

Vikulöngu gæsluvarðhaldi áfrýjað

DV hefur heimildir fyrir því að Anton hafi verið í vetrarferð með samstarfsmönnum sínum fyrir norðan um helgina. Þá hefur DV jafnframt öruggar heimildir fyrir því að íbúðin þar sem Litháinn sem fyrstur var úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna málsins hafi verið handtekinn í íbúð sem Anton hafi tekið á leigu fyrir Litháa sem voru á Íslandi á hans vegum. Lögregla innsiglaði þá íbúð um helgina og hefur hún verið innsigluð síðan þá.

Á þriðjudagsmorgun sagði Fréttablaðið svo frá því að þrír menn hefðu verið handteknir í umfangsmiklum aðgerðum Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sérsveitar ríkislögreglustjóra og annarra lögregluembætti í sumarbústað á Suðurlandi. Sagði DV frá því í gær að einn mannanna þriggja hafi verið Anton Kristinn, og hefur DV fyrir því öruggar heimildir. Þó hefur hvorki lögregla, né Steinbergur Finnbogason lögmaður Antons, viljað staðfesta að um Anton sé að ræða. Hinir mennirnir tveir voru erlendir ríkisborgarar og er nöfn þeirra ekki þekkt.

Síðdegis í gær fór svo fram húsleit í íbúð sem Anton hefur á leigu í Garðabæ og skýrslutaka yfir honum sjálfum. Farið var fram á gæsluvarðhald yfir Antoni í gærkvöldi, sem fyrr sagði, og þarf hann að sæta því vikulangt. Samkvæmt upplýsingum DV hefur þeim úrskurði nú verið áfrýjað til Landsréttar og er búist við þeim úrskurði í dag eða á morgun.

Lokað er fyrir athugasemdir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Sara furðar sig á því að leikskólar haldi upp á bóndadaginn – „Komið út í svo mikið bull”

Sara furðar sig á því að leikskólar haldi upp á bóndadaginn – „Komið út í svo mikið bull”
Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Ekkert lát á hreinsunum hjá Sýn – Nú er Steinn Kári farinn

Ekkert lát á hreinsunum hjá Sýn – Nú er Steinn Kári farinn
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Trump náðar Ross Ulbricht – Fékk lífstíðardóm árið 2015

Trump náðar Ross Ulbricht – Fékk lífstíðardóm árið 2015
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Búseti kærir borgina: Bygg­ing­ar­leyfi gefið út löngu áður en sérupp­drætt­ir voru lagðir fram

Búseti kærir borgina: Bygg­ing­ar­leyfi gefið út löngu áður en sérupp­drætt­ir voru lagðir fram
Fréttir
Í gær

Gróf pólitísk ritskoðun vekur reiði og vangaveltur um endalok tjáningarfrelsisins – „Eitthvað hræðilegt átti sér stað á meðan við vorum í burtu“

Gróf pólitísk ritskoðun vekur reiði og vangaveltur um endalok tjáningarfrelsisins – „Eitthvað hræðilegt átti sér stað á meðan við vorum í burtu“
Fréttir
Í gær

Guðmundur segir að ósanngjörn umfjöllun RÚV um Trump geti skaðað samskipti við Bandaríkjamenn – „Þessu verður að linna“

Guðmundur segir að ósanngjörn umfjöllun RÚV um Trump geti skaðað samskipti við Bandaríkjamenn – „Þessu verður að linna“