Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók í gær fjóra karlmenn vegna rannsóknar sinnar á morðinu í Rauðagerði síðastliðna helgi. Samtals eru því átta í haldi lögreglu. Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglu um málið. Þar segir jafnframt að ekki hafi verið tekin ákvörðun um hvort krafist verður gæsluvarðhalds yfir þeim.
Karlmaður á fertugsaldri frá Litháen var handtekinn fljótlega eftir morðið seint á laugardagskvöld og var hann úrskurðaður í gæsluvarðhald til fjögurra daga. Þrír voru svo handteknir í aðgerðum sérsveitar ríkislögreglustjóra og Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu aðfaranótt þriðjudags. Á meðal þeirra var Anton Kristinn Þórarinsson. Voru þeir úrskurðaðir í viku langt gæsluvarðhald seint í gærkvöldi.
DV hefur heimildir fyrir því að maðurinn sem fyrstur var úrskurðaður í gæsluvarðhald hafi verið handtekinn í íbúð sem Anton hafði til umráða og hafði séð erlendum mönnum sem voru á hans vegum hér á landi fyrir. Sú íbúð hefur verið innsigluð síðan um helgina.
Steinbergur Finnbogason, lögmaður Antons Kristins, sagði Anton saklausan af aðild að morðinu í fjölmiðlum í gær.