Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og lögreglustjórinn á Austurlandi sendu frá sér tilkynningu rétt í þessu þar sem lýst er yfir hættustigi á Seyðisfirði vegna skriðufalla. Ákveðin hús verða rýmd og stefnt er á að rýmingu sé lokið klukkan 19 í kvöld.
Spáð er ákafri úrkomu á Austfjörðum, meðal annars á Seyðisfirði. Reiknað er með því að það byrji að rigna upp úr hádegi en mestri ákefð er spáð í kvöld.
Rýmingin er gerð í varúðarskyni þar sem óvissa er um stöðuleika hlíðanna í Botnabrún eftir skriðuföllin í desember í fyrra. Staða rýmingar verður endurmetin á morgun.
Tilkynninguna má lesa í heild sinni hér fyrir neðan:
„Tilkynning frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og lögreglustjóranum á Austurlandi:
Ríkislögreglustjóri, í samráði við lögreglustjórann á Austurlandi og Veðurstofu Íslands, lýsir yfir hættustigi á Seyðisfirði vegna hættu á skriðuföllum.
Ákveðið hefur verið að rýma neðangreind svæði á Seyðisfirði vegna áframhaldandi úrkomuspár. Rýmingu skal lokið í kvöld kl. 19:00.
Um eftirtalin hús er að ræða:
Í kvöld og nótt þriðjudaginn 16. febrúar, er spáð ákafri úrkomu á Austfjörðum í austan- eða norðaustanátt, meðal annars á Seyðisfirði. Spáð er að
uppsöfnuð úrkoma á Seyðisfirði geti jafnvel orðið yfir 60 mm sem leggst við 70 mm úrkomu og leysingar frá því á laugardag. Reiknað er með því
að það byrji að rigna upp úr hádegi en mestri ákefð er spáð milli kl. 18-24 í kvöld. Hitastig er núna yfir frostmarki í fjallahæð og talsverð leysing hefur
verið síðan um helgina.
Þessi rýming er í varúðarskyni þar sem óvissa er um stöðugleika hlíðanna í Botnabrún eftir skriðuföllin í desember 2020 og hvernig jarðlög bregðast
við ákafri úrkomu. Rýmt er til að byrja með við minni rigningu og/eða leysingu en áður, þar til meiri reynsla fæst á stöðugleika hlíðarinnar. Þessi reynsla
fæst með því að fylgjast með því hvernig jarðlög bregðast við úrkomu í kjölfar skriðuhrinunnar í desember og einnig er verið að byggja upp reynslu á
túlkun gagna úr nýjum mælitækjum.
Staða rýmingar verður endurmetin á morgun, en búist er við hægt kólnandi veðri á miðvikudag og á fimmtudag verður aftur komið frost til fjalla.
Fjöldahjálparstöðin í Herðubreið verður opin eins og þörf þykir. Þjónustumiðstöð almannavarna verður áfram opin í Herðubreið á Seyðisfirði
en einnig er hægt að senda inn fyrirspurnir á netfangið sey@logreglan.is og hringja í 839 9931 utan opnunartíma.“