Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu gerir alvarlegar athugasemdir við frétt mbl.is þess efnis að lögreglumenn hafi haft í hótunum við veitingamenn í miðborginni og lögreglan hafi mistúlkað reglur um opnunartíma og sóttvarnir. Í frétt mbl.is segir:
„Mikillar óánægju gætir meðal rekstraraðila veitingastaða í miðborginni um þessar mundir. Svo virðist sem skilningur rekstraraðila og lögreglu á afgreiðslutíma veitingahúsa sé ekki sá sami. Þannig hefur í nokkur skipti komið til snarpra orðaskipta milli eigenda og lögregluþjóna, sem hafa hótað að beita sektum verði stöðunum ekki lokað og allir gestir farnir þaðan klukkan 22. Allt virðist þetta þó byggt á mismunandi túlkun á þeim reglum sem nú eru í gildi.
Erlendur Þór Gunnarsson hæstaréttarlögmaður er lögmaður fjölda rekstraraðila í miðborginni. Segir hann lögregluna beita óbeinum hótunum í samskiptum við rekstraraðilana þegar líða tekur að lokun.
„Ég hef heyrt af nokkrum stöðum í miðbænum þar sem lögreglan er að koma rétt fyrir klukkan 22 á kvöldin og hóta einhverjum sektum þar sem örfáir sitja og eru að klára að borða eða drekka drykki sína. Þessi hegðun minnir á ófagra stemningu í A-Evrópu á sínum tíma og er eftirlitsaðilum ekki til framdráttar enda rekstraraðilar að leggja sig alla fram um að virða þær reglur sem eru til staðar á hverjum tíma,“ segir Erlendur og bætir við að reglurnar séu mjög skýrar. Staðirnir megi vera opnir til klukkan 22 en við það bætist ein klukkustund þar sem fólki er gefið færi á að klára drykki og veitingar.“
Í tilkynningu lögreglunnar segir að hún hafi beitt meðalhófi í aðgerðum og lögreglumenn lagt sig fram við að leiðbeina veitingamönnum:
„Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vísar algjörlega á bug ummælum í frétt Morgunblaðsins og mbl.is í dag þar sem hún er sökuð um að hafa í hótunum við rekstraraðila veitingastaða í miðborginni, en í fyrirsögn fréttarinnar er lögregla sögð mistúlka reglur og beita hótunum. Við eftirlit í miðborginni vinnur lögregla samkvæmt túlkun heilbrigðisráðuneytisins á reglugerð um takmörkun á samkomum vegna farsóttar og þar, sem annars staðar, hefur lögreglan beitt meðalhófi. Lögreglumenn hafa einnig lagt sig fram um að leiðbeina veitingamönnum um það sem betur má fara, séu ástæður til þess. Ábendingunum hefur verið vel tekið og samskiptin verið með ágætum.
Vegna fréttarinnar er enn fremur ástæða til að ítreka að opnunartími veitingastaða þar sem heimilaðar eru áfengisveitingar skv. 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar sé til klukkan 22 en þá eiga staðirnir að vera tómir, enda sé þessum stöðum ekki heimilt að hleypa inn nýjum viðskiptavinum eftir kl. 21. Þá skal „take away“ þjónusta fara fram í gegnum lúgu eða hurð eftir kl. 21 en slík þjónusta er heimil til kl. 23 samkvæmt reglugerðinni.“