Fréttablaði sagði frá því á forsíðu blaðsins í dag að Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hefði verið í hópi manna sem staðinn var að því að leggja net í Holtsá, en slíkt er andstætt lögum. Bóndi á landinu mun hafa komið að netinu og gerði lögreglu viðvart. Málið var svo kært og hefur lögreglan á Suðurlandi staðfest að kæra vegna málsins hafi borist.
Ragnar Þór hefur síðan sagt fréttaflutning Fréttablaðsins alrangan og átti fund með lögmanni sínum í morgun vegna hugsanlegs meiðyrðamáls. Þá sagði Ragnar í samtali við blaðamann DV að málið liti út eins og ófrægingarherferð gegn sér í tengslum við kosningarnar til formanns VR sem fram fara í byrjun mars. Ragnari barst mótframboð í embætti formanns.
Fréttablaðið hefur nú birt myndir af netalögninni og viðtal við bóndann sem segir Ragnar ekki geta „fríað sig“ ábyrgð á verknaðinum. Ragnar birti fyrr í dag skjáskot af tölvupósti frá lögreglunni þar sem hún segir hann hvorki sakborning né vitni í málinu. Fréttablaðið hélt reyndar hvorugu fram í upphaflegri frétt sinni, en þar kom fram að Ragnar hefði „verið í hópi“ þeirra sem staðinn var að netalögninni.
Sem fyrr sagði hefur Ragnar sagt sig vera að skoða rétt sinn og útiloka ekki meiðyrðamál gegn Fréttablaðinu vegna málsins.