Þórir Guðmundsson, fréttastjóri fréttastofu Vísis, birti pistil á vef Vísis í dag með titilinn „Þéttum landamærin, opnum innanlands“ þar sem hann ræðir m.a. aðgerðir Nýja-Sjálands við Covid-19 faraldrinum og tækifærin sem myndast í sumar með því að þétta landamæri núna.
„Nýsjálenska aðferðin, sem felst meðal annars í hörðum aðgerðum á landamærunum og snörpum viðbrögðum við smitum, hefur skilað þeim árangri að fáar þjóðir hafa orðið fyrir minna hnjaski vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar,“ skrifar Þórir en um helgina greindust þrír einstaklingar með veiruna í Auckland, Nýja-Sjálandi og var sett á þriggja daga útgöngubann.
Íslendingar náðu að sigrast á fyrstu bylgju faraldursins en með komu ferðamanna til landsins kom veiran upp aftur og úr varð önnur og þriðja bylgja. Nú þegar allt lýtur út fyrir að þriðja bylgjan sé liðin þá kalla sumir eftir opnun á landamærunum aftur til að styðja við ferðaþjónustu á landinu.
„Nú þurfum við að læra af mistökunum. Enginn vill búa í lokuðu þjóðfélagi en af tvennu illu þá er skárra að búa við heilbrigði án samkomutakmarkana, og loka tímabundið á útlönd, heldur en að hafa opin landamæri og taka afleiðingunum, sem við vitum hverjar eru,“ segir Þórir og bendir á að vel gangi að bólusetja fólk í m.a. Ísrael, Sameinuðu Arabísku Furstadæmunum og Bretum. Það gæti leitt til þess að við getum tekið við ferðamönnum þaðan og að Íslendingar geti ferðast þangað.
Þórir segir faraldurinn hafa kennt okkur margt og vonar að Íslendingar hafi lært eitthvað af þessu.
„Einn mikilvægasti lærdómurinn er að sársaukafullar mótaðgerðir gegn skæðri farsótt og viðleitni til að halda hjólum efnahagslífsins gangandi eru engar andstæður. Þvert á móti er árangurinn af farsóttaraðgerðunum forsenda velgengni hagkerfisins. Lokum til að geta opnað; annars fer allt í klessu.“