Héraðsdómur Reykjaness dæmdi fyrir helgi mann í fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir röð afbrota sem öll tengdust fíkniefnaneyslu mannsins.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sótti málið sem höfðað var í maí á síðasta ári. Manninum var í ákærunni gefið að sök að hafa rænt hörðum diski úr Elko í Lindahverfi Kópavogs og keypt síðar tölvu í Tölvutek í Reykjavík með stolnu greiðslukorti. Samanlagt verðmæti tölvubúnaðarins nam yfir 300 þúsund krónum.
Þá var maðurinn handtekinn í ágúst árið 2018 fyrir fíkniefnaakstur, en þá mældist amfetamín, kókaín, E-pillur og slævandi lyf í blóði mannsins. Við leit lögreglu á manninum fannst þá jafnframt hnífur og bættist því ákæra fyrir brot á vopnalögum á lista lögreglunnar.
Á tímabilinu 10. – 15. september árið 2018 mun maðurinn hafa farið samtals 12 sinnum í hraðbanka með stolið greiðslukort og tekið samtals 1.190.545 krónur úr hraðbanka. Ljóst er að hluti þessara fjárhæðar hefur farið í fíkniefnakaup, því þegar lögregla fann manninn í húsasundi í Hafnarfirði þann 16. september fannst kókaín á manninum. Lagði lögregla hald á efnin og kærði hann fyrir fíknefnalagabrot.
Í september og desember það sama ár og aftur í febrúar 2019 lagði lögreglan hald á kókaín sem hún fann á manninum.
Fyrir dómi játaði maðurinn sök án undandráttar, að því er kemur fram í dómnum yfir manninum. Segir þar jafnframt að maðurinn eigi lítinn sakaferil og að hann hafi undanfarið unnið að því að taka sig á. Hann hafi hætt neyslu fíkniefna og leggur nú stund á nám. Að teknu tilliti til þess hafi fimm mánaða fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, þótt hæfileg refsing.
Þar að auki er maðurinn sviptur ökuréttindum í ár auk þess sem hann þarf að greiða um kvart milljón í sakarkostnað.