„Persónulega hef ég aldrei skilið af hverju ég geri þetta. Ég skil læknisfræðilegu útskýringuna en ég skil ekki af hverju ég hef enga stjórn. Í hvert einasta sinn sem ég tapaði öllu skrifaði ég heilu ritgerðirnar um það hvernig ég ætlaði að haga mínu lífi. Það skipti engu máli. Ég hafði aldrei neina stjórn fyrr en peningurinn var búinn. Þá átti ég ekkert allan mánuðinn og svo gerði ég þetta allt aftur. Byrjaði alltaf á núllinu. Alveg stórmerkilegt,“ segir Óskar Steinn Gestsson, í viðtali við vefsíðuna lokum.is.
Um er að ræða ávekniátak á vegum „Samtaka áhugafólks um spilafíkn“ og ber átakið heitið „Lokum spilakössum“.
Óskar er 46 ára gamall og var virkur spilafíkill í 25 ár. Hann hefur að mestu leyti verið laus undan fíkninni undanfarin ár en þarf að halda áfram að vinna í sjálfum sér. Óskar er einnig óvirkur alkóhólisti og sækir AA-fundi.
Spilakassafiktið hjá Óskari hófst er hann var 12 ára og hann minnist skammarlegs atviks er hann stal frá móður vinar síns:
„Ég á mjög sterka minningu frá því ég var tólf ára. Ég lá á stofu á spítala með strák sem ég þekkti. Ég lá þar í þrjá daga og fékk að fara heim en daginn eftir fór ég í heimsókn til stráksins. Mamma hans var líka í heimsókn og þegar hún sneri sér við stal ég veskinu hennar. Þetta er það fyrsta óheiðarlegra sem ég gerði. Ég man að ég fór með fimm þúsund kallinn úr veskinu hennar í sjoppu sem var þá á Neðstutröð og eyddi honum í spilakassa. Auðvitað komst strax upp hver stal veskinu því það kom enginn annar til greina. Þegar ég kom heim úr sjoppunni varð allt vitlaust út af þessu. Pabbi var bálreiður út í mig. – Ég man alltaf skömmina þegar ég hitti strákinn eftir þetta. Ég gat ekki horft í augun á honum. Kaldhæðni örlaganna réð því að næstu tíu árin vann þessi strákur hjá Vídeómarkaðinum í Hamraborg. Lengi vel í minni spilageðveiki gat ég ekki farið þangað inn því ég vissi að hann var að vinna.“
Óheiðarleikinn sem fylgir spilafíkn magnaðist upp í Óskari og 17 ára stal hann fermingarpeningum systur sinnar:
„Yngri systir mín fermdist og ég stal fermingarpeningunum hennar, sem á þeim tíma voru fimmtíu til sextíu þúsund. Ég tók ekki allt í einu heldur stal smátt og smátt. Í sjálfsblekkingunni á þeim tíma hélt ég að ég gæti unnið, tekið út vinninginn og skilað peningunum áður en þetta kæmist upp. En kassinn étur alltaf allt saman. Þetta komst síðan auðvitað upp því það kom enginn annar til greina. Alltaf þegar eitthvað hvarf beindust spjótin að mér og fólk fór fljótt að hætta að treysta mér.“
Óskar lýsir líka leiðinni út úr þessu myrkri en viðtalið má lesa hér.