Vettvangur mannsláts sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur tilkynnt um var fyrir utan hús í götunni Rauðagerði í Reykjavík. Í nótt barst DV nafnlaus ábending þess efnis að margir lögreglubílar væru í Rauðagerði. RÚV staðfestir í frétt sinni að lögregla hafi verið kölluð að húsi í Rauðagerði undir miðnætti og þar hafi verið slasaður maður.
Maðurinn var síðan úrskurðaður látinn skömmu eftir komu á Landspítalann. Maðurinn var á fertugsaldri. Einn er í haldi lögreglu vegna málsins og er hann einnig á fertugsaldri. Mennirnir eru báðir erlendir.
Rannsókn málsins er á frumstigi en von er annarri tilkynningu frá lögreglu síðar í dag.