Laust fyrir kl. 21 í gærkvöld var tilkynnt um umferðaróhapp á Bústaðavegi. Bíl var ekið á vegrið og kastaðist bíllinn við það yfir á rangan vegarhelming og framan á annan bíl. Ökumaðurinn sem þessu olli ók síðan burtu af vettvangi en hann var handtekinn á heimili sínu skömmu síðar, grunaður um ölvun við akstur. Ökumaður í bílnum sem ekið var á ætlaði sjálfur á bráðadeild til aðhlynningar þar sem hann fann fyrir eymslum. Bíll hans varð fyrir miklu tjóni og var fluttur af vettvangi.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglu. Þar segir einnig frá því að á fimmta tímanum í nótt var tilkynnt um mann í annarlegu ástandi sem var að brjóta brunaboða í Ráðhúsi Reykjavíkur. Hafði hann áður tæmt úr slökkvitæki í bílageymslu. Maðurinn var meiddur á hendi og var honum ekið á bráðadeild til aðhlynningar.
Rafskútu, myndavél og fleiru var stolið úr húsi í Hafnarfirði snemma í gærkvöld en þar var tilkynnt um innbrot í tvö fjölbýlishús. Voru hurðir spennar upp og brotnar. Var brotist inn í geymslur í húsunum.