Fyrri hluti aðalmeðferðar fór fram í vikunni í meiðyrðamáli Jóns Baldvins Hannibalssonar, fyrrum sendiherra og utanríkisráðherra, gegn dóttur sinni, Aldísi Schram, Sigmari Guðmundssyni og RÚV. Málið varðar útvarpsviðtal Sigmars og kollega hans, Helga Seljan, við Aldísi, sem spilað var á Rás 2 þann 17. janúar 2019.
Í þættinum sagði Aldís að Jón Baldvin, faðir hennar, hefði í fjölmörg skipti sigað lögreglu á hana og fengið hana nauðungarvistaða án þess að sú vistun færi rétta leið í réttarkerfinu. Þá kom einnig fram í þættinum að Jón Baldvin hefði framið sifjaspell þegar hún var fullorðin kona.
Auk aðilanna þriggja í málinu gáfu fimm vitni skýrslur í málinu, þau Bryndís Schram, eiginkona Jóns, og dóttir þeirra, Kolfinna Baldvinsdóttir, Margrét Schram, systir Bryndísar, dóttir Margrétar og loks vinkona Aldísar.
Blaðamaður DV var á staðnum þegar Jón Baldvin mætti í dómshúsið við Lækjargötu ásamt Kolfinnu. Í anddyri dómshússins mætti Kolfinna frænku sinni sem komin var til þess að vitna fyrir Aldísi og kallaði að henni yfir anddyrið: „Ég veit ekki hvað í andskotanum þú ert að gera hér.“ Segja má að atvikið hafi lagt línurnar fyrir daginn. Myndband af atvikinu má sjá hér.
„Trúði varla mínum eigin eyrum“
Jón Baldvin hóf leik og sat undir svörum lögmanns í tvær klukkustundir. Hafði dómarinn þá orð á því að dagskrá dómsins væri fokin út í veður og vind. Lýsti Jón upplifun sinni af viðtali Aldísar: „Ég var varnarlaus, orðlaus, ég trúði varla mínum eigin eyrum.“ Jón sagðist vanur árásum eftir langan feril í stjórnmálum, en ásakanirnar á Rás 2, „útvarpi allra landsmanna“, hafi komið aftan að honum.
Jón þverneitaði fyrir að hafa staðið að baki frelsissviptingu Aldísar og sagðist aðeins hafa staðfest tillögur lækna. Það hafi hann gert í umboði Aldísar.
Aldís Schram sagði framburð föður síns, sem hún kallar þó ekki föður sinn, alrangan. Flutti hún í löngu máli rök fyrir því, og vísaði til fjölmargra gagna um það, að Jón hefði vissulega átt frumkvæðið að því að láta nauðungarvista hana.
„Eldhúsréttarhöldin“ í sendiherrabústaðnum
Mikið var rætt um meintan geðsjúkdóm Aldísar í tengslum við nauðungarvistanirnar, en Aldís sagði greiningar geðlækna á sér rangar og illa að þeim staðið. Það hafi hún svo fengið staðfest með bréfi Páls Matthíassonar, forstjóra Landspítalans, um að skýrslur lækna sem voru nýttar sem grundvöllur fyrir nauðungarvistanir væru „ekki hafnar yfir allan vafa“.
Aldís vísaði í þessu sambandi til uppgjörsins milli hennar og foreldra hennar árið 2002 í sendiherrabústaðnum í Washington D.C. Hafði Aldís þá heimsótt foreldra sína til borgarinnar með barnungri dóttur sinni og gistu þær á heimili Jóns og Bryndísar. Lýsti Aldís því þá hvernig hún hafi á föstudaginn langa það ár „sprungið“ og sagði móður sinni frá því að hún vissi að Jón Baldvin hefði verið sakaður um kynferðisofbeldi. „Ég bara spring þarna og bunaði þessu út úr mér og frú Bryndís brást við grátandi. Þetta var einn af eftirminnilegustu dögum lífs míns,“ sagði Aldís í vitnastúkunni.
Uppákomuna kallaði Jón Baldvin „eldhúsréttarhöldin.“
Jón Baldvin var þá kallaður heim úr vinnu. „Við förum upp á efri hæð í sendiherrabústaðnum þar sem við áttum munnlegt einvígi þar sem hann ýmist sór fyrir þær sakir eða bar því við að hann hefði verið fullur.“
Aldís segir sannað að Jón hafi látið leggja sig inn
Aldís og dóttir hennar flugu heim til Íslands þar sem við tók áreiti frá læknum á geðdeild. „Ég vakna svo við það að mér sé sagt að Jón Baldvin hefði kært mig til geðdeildar og félagsþjónustunnar,“ sagði Aldís. Að hennar sögn sanna sjúkraskýrslur, sem hún fékk síðar aðgang að, að Jón Baldvin og Bryndís hefðu átt frumkvæði að því að geðlæknar höfðu samband við hana. Í sjúkraskýrslunni kemur fram að veikindi Aldísar hafi hafist einmitt á föstudaginn langa.
„Það er náttúrlega augljóst, herra virðulegur dómari, það er ekki geðlæknir og spítali sem hugsar með sér strax: „Best að nauðungarvista Aldísi.“ Hann þarf að fá einhverjar upplýsingar. Atburðarásin er einmitt þannig að það er fyrst Jón Baldvin eða Bryndís sem hefur samband. Ég vissi þá ekki hvers lags foreldra ég ætti. Ég vissi ekki að þau væru að bera í mig gegndarlausa geðveiki,“ sagði Aldís.
Spennuþrungið andrúmsloft í réttarsal
Kolfinna Baldvinsdóttir hafði aðeins setið í vitnastúku í nokkrar mínútur þegar hún kallaði systur sína „djöfulinn í mannsmynd“. Nokkrum mínútum síðar greip Aldís orðið af systur sinni og spurði dómarann hvort hann ætlaði að láta lygarnar í henni yfir sig ganga. Bað dómarinn Aldísi um að hafa sig hæga og leyfa vitninu að svara spurningum lögmanna í friði.
Ljóst var að köldu andaði á milli systranna og má segja að soðið hafi upp úr þegar systurnar tóku báðar stefnuna á dyragætt réttarsalarins og rákust á hvor aðra af talsverðu afli. Kolfinna féll við og þurfti að grípa í hurðina til að halda jafnvæginu. Mátti heyra Aldísi kalla að systur sinni: „Þú ert svo viðbjóðsleg.“ Kolfinna svaraði um hæl: „Á ég að segja þér hvað þú ert?“
Síðari hluti aðalmeðferðarinnar er á dagskrá í dag, föstudag. Málið verður svo dómtekið, eins og sagt er og hefur dómari þá fjórar vikur til þess að kveða upp dóm sinn.