Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að bandarísk stjórnvöld hafi í auknum mæli reynt að fylgjast með notkun rafmynta en þær eru taldar vera hornsteinninn í ýmissi ólögmætri starfsemi. Þar má nefna hryðjuverkastarfsemi, fíkniefnaviðskiptum og dreifingu barnakláms.
Í skýrslu bandaríska fjármálaráðuneytisins frá 2017 kemur fram að Azym Abdullah, sem hýsti vefsíðu hryðjuverkasamtakanna sem kenna sig við Íslamska ríkið hér á landi 2014, hafi notað bitcoin í þeim viðskiptum sem hann stundaði. Það hafi níu aðrir þekktir hryðjuverkamenn einnig gert.
Leitað er að rafmynt, eða hún „grafin upp“, í gagnaverum hér á landi og krefst þetta mikillar orku. Um 5% af orku landsins fer til gagnavera og þar af fara um 90% í námagröft. Meðal kaupenda eru fyrirtæki sem fáir hér á landi þekkja til. Má þar nefna HIVE Blockchain, Genesis Mining og Bitfury en þessi fyrirtæki mala gull á starfseminni þrátt fyrir að orkuverð sé hátt.
Eftir því sem kemur fram í svari Fjármálaeftirlitsins til Fréttablaðsins þá er rafmynt ekki viðurkenndur lögeyrir hér á landi og fellur því ekki undir ákvæði laga um greiðsluþjónustu eða útgáfu og meðferð rafeyris.