Sigmar Guðmundsson, frétta- og dagskrárgerðarmaður á RÚV, tók sæti í vitnastúku í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag þar sem mál Jóns Baldvins Hannibalssonar gegn Aldísi Schram var tekið til aðalmeðferðar.
Málið höfðaði Jón Baldvin gegn Aldísi, dóttur sinni, Sigmari og RÚV vegna viðtals sem Sigmar og Helgi Seljan, kollegi hans, tóku við Aldísi og spilað var á Rás 2. Þar komu meðal annars fram ásakanir Aldísar um að Jón Baldvin hefði misnotað sig kynferðislega og misnotað vald sitt sem sendiherra og fyrrverandi ráðherra til að fá sig nauðungarvistaða án dóms og laga á geðdeild.
Sigmar var spurður að því hver aðdragandinn að viðtalinu hafi verið og var fréttnæmi viðtalsins gert að umræðuefni. Sigmar svaraði því að Aldís hefði í áraraðir verið sögð geðveik og lítið hlustað á ásakanir hennar gegn Jóni Baldvini í því ljósi. Sagði hann að hugarfarsbreytingin sem fylgdi #metoo byltingunni svokallaðri og sá mikli fjöldi sem hafi stigið fram í tengslum við hana og ásakað Jón Baldvin um kynferðisbrot hafi réttlætt viðtalið. Ásakanirnar væru fréttnæmar í því ljósi.
Sjá nánar: Fjölskylduuppgjör í réttarsal – Hrollvekjandi lýsingar Aldísar í vitnastúku
Sigmar bætti þá við honum hafi verið hugsað til hlutverks fjölmiðla í raunum Aldísar: „Mér varð hugsað til þess að fjölmiðlar hafi kannski brugðist Aldísi,“ sagði Sigmar. Kannski voru það sögurnar um geðveiki hennar sem réðu þar stefnu, sagði Sigmar. Þá sagði hann að „mál“ sem tengdust óviðeigandi hegðun Jóns hefðu komið upp áður. „Þessi mál hafa verið að dúkka upp á ritstjórnum í mörg ár, um árabil. Löngu áður en Guðrún Harðardóttir kom fram með sín bréf,“ sagði Sigmar.
Aðspurður hvort þeir hafi kannað sannleiksgildi sagna Aldísar svaraði Sigmar að hann og Helgi hafi hitt Aldísi tveimur eða þremur dögum fyrir spilun viðtalsins og rætt við hana og fengið hjá henni gögn. Kom fram í máli Sigmars að hann og Helgi hafi hitt Aldísi og fundist hún í miklu jafnvægi. Hann tók fram að hann væri ekki læknismenntaður og sagði deildar meiningar um það hvort Aldís væri raunverulega með geðsjúkdóm, en jafnvel þó hún væri með geðhvarfasýki, þá væru þannig manneskjur ekki alltaf veikar. Lýsti hann því að Aldís hafi verið yfirveguð, með sitt á hreinu, gat vísað til allra gagna í miklum smáatriðum. Heilt yfir sagði Sigmar Aldísi trúverðuga.
Þá lýsti Sigmar því hvernig hann og Helgi hafi ítrekað reynt að ná tali af Jóni Baldvini í heimasíma og farsímanúmerið. Þá sendu þeir Jóni smáskilaboð og var skjáskot af þeim smáskilaboðum lagt fyrir sem gagn í málinu. Jón Baldvin hrökk við þegar orðið „skjáskot“ kom fram í máli lögmanns Sigmars og gaf það til kynna að hann vissi ekki hvað það væri. Það breytti því þó ekki að skjáskotið var lagt fram.