Reynir Traustason ritstjóri og Trausti Hafsteinsson , fréttastjóri Mannlífs, hafa keypt vörumerkið Mannlíf og lénið mannlif.is af Birtingi útgáfufélagi. Birtingur útgáfufélag er í eigu Goðdala sem er 100% í eigu Sigríður Dagnýjar Sigurbjörnsdóttur.
Um er að ræða fréttavef sem hefur vakið athygli fyrir hörð og umdeild fréttaskrif undanfarna mánuði. Vefurinn kynnir sig sem beittan og lifandi fjölmiðil. Auk Reynis og Trausta eru þeir Kristjón Kormákur Guðjónsson og Hjálmar Friðriksson blaðamenn á ritstjórn miðilsins. Eru þetta allt þrautreyndir blaðamenn.
Í fréttatilkynningu vegna kaupanna segir:
„Reynir Traustason segir ánægjulegt að fá tækifæri til að leiða Mannlíf áfram og nú sem eigandi. „Við höfum verið í mikilli sókn undanfarin misseri. Af lestrarmælingum má ætla að lestur Mannlífs sé í dag talsvert meiri en samanlagður lestur þeirra þriggja netmiðla sem við bárum okkur saman við þegar ég hóf störf sem ritstjóri Mannlífs. Á bilinu 50-60 þúsund lesendur heimsækja vef
Mannlífs að jafnaði á hverjum degi og við munum halda áfram að höfða til ört stækkandi lesendahóps.“
Kaup Reynis og Trausta eru í gegnum einkahlutafélagið Sólartún ehf, sem er að 75 prósent hluta í eigu Reynis og Trausti er eigandi að 25 prósenta hlut í félaginu.“