Markaður Fréttablaðsins skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að viðræður standi nú yfir á milli HÍ og menntamálaráðuneytisins um kaupin. Haft er eftir Jóni Atla að hann horfi til þess að menntasvið skólans verði flutt úr Skaftahlíð í húsnæði Hótels Sögu. Stefnt hafi verið að flutningi menntasviðs síðan HÍ sameinaðist Kennaraháskólanum 2008.
Aðspurður sagði Jón Atli að ódýrara væri að kaupa Hótel Sögu, að ákveðnum forsendum gefnum, en að byggja nýtt húsnæði. Húsnæðið þarfnist einhverra endurbóta til að aðlaga það að skólastarfi.
HÍ er með mikla starfsemi í nágrenni við Hótel Sögu og má þar nefna að fyrirlestrar fara fram í Háskólabíói, sem er nánast við hlið hótelsins. Skammt er í Þjóðarbókhlöðuna og við hlið hennar er verið að byggja Hús íslenskunnar.
Það er Bændahöllin, félag í eigu Bændasamtaka Íslands, sem á húsið. Hótel Saga, félag í eigu samtakanna, sá um rekstur hótelsins. Bæði félögin eru í greiðsluskjóli til 7. apríl.
Markaðurinn segist hafa heimildir fyrir að hátt í 20 aðilar, innlendir sem erlendir, hafi sýnt áhuga á húsnæðinu.
Morgunblaðið hefur eftir Gunnari Þorgeirssyni, formanni Bændasamtaka Íslands, ekkert sé fast í hendi en félagið sé með mörg járn í eldinum. Samtökin eru að sögn Morgunblaðsins í viðræðum við allmarga fjárfesta, innlenda og erlenda, um kaup á Hótel Sögu.