Til átaka koma á byggingarsvæði í Garðabæ í ágúst árið 2018. Pípulagningameistari kom þar til að sækja gám með verkfærum í hans eigu. Til orðaskipta kom á milli hans og eiganda fyrirtækis á byggingarsvæðinu, sem síðan leiddu til átaka. Síðarnefndi maðurinn var ákærður fyrir að kýla pípulagningameistarann með krepptum hnefa í magann og vinstra megin í andlitið. Ennfremur var hann sakaður um að hafa sparkað í vinstra hné mannsins. Afleiðingar af hinni meintu árás hafi verið þær að brotaþoli hlaut opið sár á höku, yfirborðsáverka á höfði og mar á vinstra hné.
Héraðssaksóknari krafðist þess að hinn ákærði yrði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Brotaþolinn fór fram á rúma hálfa milljón í skaðabætur.
Atvikum á vettvangi er lýst svo í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur:
„Samkvæmt kæruskýrslu mætti A, hér eftirnefndur brotaþoli, á lögreglustöð 14. ágúst 2018 og lagði fram kæru á hendur ákærða í máli þessu, fyrir meinta líkamsárás 10. sama mánaðar á vinnusvæði við […]í Garðabæ. Brotaþoli, sem starfar sem pípulagningameistari, greindi frá meintum atvikum eins og þau horfðu við honum við skýrslutökuna, þar með talið aðdraganda og öðrum samskiptum, hvar og hvenær þau hefðu átt sér stað og hverjir voru viðstaddir. Í skýrslunni kom meðal annars fram að brotaþoli hefði komið á vinnusvæðið, ásamt öðrum manni, B, á kranabifreið til að sækja verkfæragám í eigu brotaþola. Til snarpra orðaskipta hefði komið milli brotaþola annars vegar og ákærða og C hins vegar, varðandi fjárhagslegt uppgjör þeirra á milli eða fyrirtækis þeirra. Þau samskipti hefðu leitt til þessað ákærði hefði kýlt hann einu sinni í magann og nokkrum sinnum í andlitið, auk þess að sparka nokkrum sinnum í annað hnéð á honum. Þá kvaðst brotaþoli í framhaldi hafa leitað á lögreglustöð í Hafnarfirði og síðan á bráðamóttöku Landspítalans.“
Hinn ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 21. janúar 2019 og neitaði sök. Hann greindi frá atvikum eins og þau blöstu við honum. Hann sagði að sig og brotaþola hefði greint á, brotaþolinn hefði verið vanstilltur og hann hefði beðið hann að fara, hafi hann ýtt á brjóstið á honum með flötum lófa en ekki slegið hann. Vísaði hann á bug ásökunum um hnefahögg í maga og á kjálka.
Pípulagningameistarinn leitaði á bráðamóttöku eftir atvikið og upplýsingar í læknisvottorði, byggðu á skoðun þar, voru eftirfarandi, með orðalagi úr dómnum: