Karlmaður sem ákærður er fyrir kynferðislega áreitni og brot á barnaverndarlögum neitaði sök við þingfestingu málsins í síðustu viku í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Héraðssaksóknari gaf þann 12. nóvember síðastliðinn út ákæru á hendur manninum fyrir að hafa þann 2. september 2019 farið í leyfisleysi inn í byggingu Austurbæjarskóla við Barónsstíg í miðborg Reykjavíkur og áreitt þar kynferðislega börn í skólanum.
Í ákærunni, sem DV hefur undir höndum, er maðurinn sagður hafa brotið gegn þremur nemendum skólans. Mun hann hafa lokkað níu ára gamla stelpu með sér upp á rishæð skólans þar sem hann kleip hana í rassinn og strauk læri og kynfæri hennar utanklæða. Þá er hann sagður hafa slegið 14 ára gamlan strák í rassinn og sest svo við hlið 15 ára stúlku og hindrað að hún kæmist í burtu frá honum. Mun hann hafa sett hendi á læri stúlkunnar og elt hana svo þar til stúlkan leitaði skjóls í hópi skólabræðra hennar.
Málið vakti mikinn óhug er það kom upp. Sagði DV frá því í september 2019, að móðir stúlkunnar hafi fengið þær upplýsingar að maðurinn hafi verið á sveimi um skólann í um klukkustund þann dag. Var á það bent að umrætt atvik hafi átt sér stað í upphafi skólaárs, þegar margt var um manninn og mörg ný andlit á vappi um bygginguna.
Sögðu skólayfirvöld í kjölfar atburðarins að öryggismál yrðu tekin til skoðunar í skólanum að vinna við að skoða uppsetningu aðgangsstýringar væri hafin. Móðirin sagði þá frá því að dóttir konunnar hefði glímt við martraðir um að einhver væri að elta sig. Hún sjálf hefði jafnframt fengið „einhverskonar áfall.“ „Ég varð ofboðslega reið, eiginlega meira gagnvart skólanum en manninum, því ég lít á hann sem mann sem þarf verulega mikla hjálp. Ég varð reið við skólann því ég hélt að barnið mitt væri öruggt þar,“ sagði móðirin.