Annar júní sumarið 2010 var hræðilegu örlagadagur í lífi Hrefnu Katrínar Stefánsdóttur, þroskaþjálfa á Siglufirði. Hún féll þá af þaki húss síns er hún var að búa það undir málningarvinnu. Fallið var þrír metrar og hafði þær afleiðingar að Hrefna er 75% öryrki í dag.
Hins vegar kom í ljós síðar að Hrefna var tryggð gegn slysi í frítíma sínum í gegnum atvinnu sína hjá Fjallabyggð. Hún var ekki upplýst um þennan rétt sinn né heldur það að vinnuveitandinn skipti um tryggingafélag um þetta leyti. Þegar Hrefna lagði fram kröfu sína um bætur vegna slyssins hafnaði tryggingafélagið kröfunni á þeim grundvelli að hún væri of seint fram komin.
Hrefna stefndi því Fjallabyggð og tryggingafélaginu Sjóvá-Almennar tryggingar. Krafan á Fjallabyggð er reist á því að sveitarfélagið hafi vanrækt skyldu sína til að upplýsa Hrefnu um réttindi hennar. Um þetta segir í texta dómsins:
„Kröfur stefnanda á hendur stefnda Fjallabyggð séu einkum á því byggðar að starfsmenn stefnda hafi vanrækt upplýsingaskyldu og leiðbeiningarskyldu sína gagnvart stefnanda og hafi með því sýnt af sér saknæma háttsemi. Starfmönnum Fjallabyggðar hafi borið að upplýsa stefnanda um rétt hennar til slysabóta.“
Fjallabyggð og Sjóvá-Almennar kröfðust þess að málinu yrðu vísað frá. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að sú skylda hafi hvílt á Hrefnu að vera upplýst um réttindi sín en upplýsingar um þau hafi verið að finna í kjarasamningi.
„Þetta hefur verið mjög löng þrautaganga og þetta atvik hefur haft mjög mikil áhrif á heilsu mína,“ segir Hrefna í samtali við DV. Hún var í góðu starfi hjá Fjallabyggð en er núna 75% öryrki og óvinnufær.
Hrefna starfaði hjá Fjallabyggð frá árinu 2007. Í byrjun árs 2010, eftir að hún lauk háskólanámi sem þroskaþjálfi, var gerður nýr ráðningarsamningur þar sem hún var ráðin deildastjóri yfir málefnum fatlaðra hjá Fjallabyggð. Með þessum nýja ráðningarsamningi öðlaðist Hrefna rétt til alhliða frístundaslysastyggingu þar sem hún færðist úr verkalýðsfélaginu Kili til Þroskaþjálfarafélagsins, sem er aðili að BHM. Tryggingin var keypt hjá Sjóvá-Almennum tryggingum og var í gildi daginn sem Hrefna féll af þakinu.
En um þetta vissi Hrefna ekki og var ekki upplýst um þetta. Einnig var það svo að afleiðingar slyssins voru lengi að koma fram, Hrefna var áfram í vinnu um skeið uns henni versnaði svo mikið að hún gafst upp.
„Þeir voru búnir að skipta um tryggingafélag og það var enginn upplýstur um það, ég var ekki upplýst um að ég væri tryggð fyrir þessu. Ég vann á skrifstofuni í öll þessi ár og ég var aldrei upplýst um neitt. Það var gengið illa framhjá mér og það er mikil reiði í mér,“ segir Hrefna.
„Ég var mjög illa farin eftir þetta fall en maður hélt bara áfram á hnefanum. Svo kemur af því að maður hrynur, heilsan fór alveg. Þetta atvik er upphafið að mínum heilsubrest og ég er enn að glíma við afleiðingarnar af því,“ segir Hrefna enn fremur, tíu og hálfu ári eftir að hið hörmulega atvik átti sér stað.
Baldvin Steinar Ingimarsson, eiginmaður Hrefnu, segir í samtali við DV að hann eigi fund með lögmanni hennar á morgun (10. febrúar) og eftir það verði tekin ákvörðun um áframhaldandi skref í málinu.
Úrskurð héraðsdóms má lesa hér