Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir að Icelandair geti lifað í heilt ár í viðbót undir óbreyttum kringumstæðum og er bjartsýnn á að félagið muni ekki þurfa að nýta sér ríkisábyrgðina sem Alþingi samþykkti að veita að félaginu síðasta haust í tengslum við hlutafjárútboð félagsins.
Þetta kom fram í hádegisfréttum Bylgjunnar.
Tap félagsins á síðasta ári nam 51 milljarði. Bogi sagði mikið af tapinu útskýrast af afskriftum eigna og öðrum bókhaldslegum ástæðum. Hann segir starfsmenn Icelandair hafa staðið sig einkar vel í að „minnka brunann“.
„Við erum í sömu aðstæðum og öll önnur flugfélög í heiminum. Covid er að hafa gríðarleg áhrif á flug og ferðalög eins og þekkt er. Við getum verið stolt af því hvernig við komum út úr þessu ári miðað við aðstæður,“ sagði Bogi við Bylgjuna.
Bogi kvaðst bjartsýnn á að ástand mála verði betra á næstunni. „Ég er bjartsýnn á að bólusetningar og þess háttar aðgerðir muni leiða til þess að takmörkunum verði aflétt.“
Hlutafjárútboð Icelandair fór fram um miðjan september á síðasta ári og tókst með eindæmum vel. Mikil umframeftirspurn reyndist vera eftir hlutum í félaginu. Icelandair Group ætlaði sér að safna að minnsta kosti 20 milljörðum í félaginu en hafði heimild til þess að hækka það í 23 milljarða, yrði eftirspurnin næg.
Alls bárust yfir níu þúsund áskriftir í útboðinu, samtals upp á um 37,3 milljarða króna. Sjö milljarða tilboði Michele Ballarin var hafnað, eins og frægt varð. Eftir stóðu 30,3 milljarðar sem færðir voru niður í 23 milljarða. Það var gert með því að skerða upphæð stærstu tilboðanna um 37%.
Hlutirnir voru boðnir út á genginu einn. Gengið er nú rokkandi í kringum 1,8.