„Þetta byrjar á einu skipti þar sem maður eyðir meira en maður ætlaði. Skiptin verða fleiri og fleiri og upphæðirnar hærri og hærri. Allt í einu eru spilakassar búnir að taka völdin í lífinu þínu,“ segir Karitas Valsdóttir í viðtali við vefinn lokum.is, en það er vettvangur áhugafólks um spilafíkn sem stendur að baki átakinu „Lokum spilakössum“.
Karitas er rúmlega þrítug en hún glímdi við spilafíkn í nokkuð langan tíma. Hún hefur verið spilalaus í tæplega fjögur ár en vegna spilafíknar rústaði hún hjónabandinu, missti forræði yfir börnum sínum og reyndi sjálfsvíg.
Í viðtalinu lýsir því Karitas því hvernig hún hafi reynt að setja sér reglur sem hún síðan stóð ekki við uns hún hafði breyst í manneskju sem hún vildi ekki vera:
„Ég byrjaði á því að setja mér leikreglur. Að ég myndi ekki gera hitt og þetta. Aldrei taka lán, aldrei eiga VISA kort, aldrei fara úr vinnu til að spila. Það gekk alveg í langan tíma en það kemur að því að spilafíkill eyðileggur leikreglurnar sínar. Fer yfir línuna. Og línan færist lengra og lengra í burtu þannig að maður fer aftur og aftur yfir hana. Smám saman missir maður rétta hugsun. Þegar ég var sem veikust breyttist ég í manneskju sem ég er ekki og vil ekki vera. Það finnst mér ógeðslegasta við þessa fíkn.“
Karitas telur að spilafíkn hennar hafi meðal annars verið flótti undan sársauka vegna áfalla í æsku:
„Spilakassar voru ákveðinn flótti. Ég hef gengið í gegnum viðbjóðslega hluti. Ég var misnotuð, mér var nauðgað, þannig að ég var mjög reið sem ungmenni. Spilakassar voru staður þar sem ég gat komist burt frá öllu. Þar sem ég þurfti ekki að hugsa um neitt, starandi á maskínu. Þetta gaf mér frið frá öllu öðru. Í lokin var þetta orðið meiri flótti en skemmtun. Ég var orðin uppgefin því ég var í feluleik allan daginn og með kvíðahnút í maganum yfir því hvort ég gæti reddað pening til að spila meira. Þetta var rosalegur rússíbani.“
Karitas lýsir því einnig hvernig spilafíknin leiddi fátækt og eymd yfir fjölskyldu hennar:
„Ég var að vinna í eldhúsi á meðgöngunni þannig að við lifðum á matarafgöngum. Við misstum húsið okkar þegar ég var ólétt þannig að við fluttum í bílskúrinn hjá frænku minni. Ég var að drepast í bakinu, sofandi á dýnu í gluggalausum bílskúr. Þetta gerðum við svo við gætum spilað. Við þénuðum nóg til að leigja húsnæði en við tókum þessa ákvörðun og lögðum þetta á okkur til að geta spilað. Ég vann eins og brjálæðingur á þessum tíma og það er sorglegt að hugsa til þess hvað ég lagði mikið á mig fyrir eitthvað sem fór í spilakassa á tveimur dögum.“