Karlmaðurinn sem ákærður var fyrir einkar hættulega árás á Café Amour á Akureyri á nýársnótt er horfinn. Manninum var með ákæru snemma árs 2020 gefið að sök að hafa slegið til annars manns með glerflösku í höfuðið með þeim afleiðingum að brotaþoli hlaut 2 sentimetra langan skurð á höfði.
Samkvæmt heimildum DV er maðurinn líkast til löngu farinn af landi brott en hann hafði áfram skráð lögheimili hérlendis eftir að hann fór. Maðurinn er erlendur ríkisborgari. Þar sem ekki tókst að birta manninum ákæru samkvæmt reglum þar um var hún ásamt fyrirkalli birt í Lögbirtingablaði þar sem skorað var á manninn að mæta í Héraðsdóm Norðurlands eystra 9. desember og taka afstöðu til ákærunnar. Auglýsingin í Lögbirtingablaðinu virðist hafa farið framhjá manninum og lét maðurinn sig því vanta. Málið var því dómtekið að honum fjarstöddum og hann sakfelldur fyrir árásina. Hlaut maðurinn sex mánaða fangelsisdóm, en refsingin var skilorðsbundin til tveggja ára. Þar sem um var að ræða alvarlega líkamsárás, var málið sótt af Héraðssaksóknara.
Dómurinn yfir manninum féll þann 22. janúar síðastliðinn og þar sem ekki tókst heldur að birta manninum dóminn var hann í dag, eins og ákæran, birtur í Lögbirtingablaðinu.
Í samtali við blaðamann DV sagði Eyþór Þorbergsson hjá Lögreglunni á Norðurlandi eystra að í þeim tilfellum þar sem hinn sakfelldi finndist ekki og um væri að ræða skilorðsbundinn dóm væri slíkum málum yfirleitt lokið af hálfu lögreglunnar með birtingu dómsins í Lögbirtingablaðinu. „Ef þetta væri óskilorðsbundinn dómur færi málið í allt annan farveg. Þá væri lýst eftir manninum samkvæmt viðeigandi ferlum,“ sagði Eyþór.
Þar sem maðurinn var ekki dæmdur til að greiða sakarkostnað og enginn einkaréttarleg krafa höfð upp í málinu verður ekki um neina innheimtu þvert á landamæri að ræða heldur.