Fjölskylda fjallagarpsins Johns Snorra Sigurjónssonar óskar eftir andrými og segir stöðuna þungbæra í tilkynningu sem send var fjölmiðlum rétt í þessu.
John Snorra hefur nú verið saknað í þrjá daga.
„Leit að John Snorra, Muhammad Ali Sadpara og Juan Pablo Mohr á K2, undir stjórn pakistanska hersins, hefur staðið yfir í þrjá daga án árangurs. Ljóst er að þegar myrkur skellur á í fjallinu, um 14:00 að íslenskum tíma, er vonin um að þeir finnist á lífi mjög lítil því aðstæður á fjallinu eru virkilega erfiðar og kuldinn mikill. Sjaid Ali Sadpara, sonur Muhammad, sem var einnig hluti af hópnum sem ætlaði á tindinn, er nú kominn til byggða en hann sneri til baka á föstudaginn vegna bilunar í súrefniskút.“
„Við vitun að núna þegar myrkrið skellur á í fjallinu er lítil von um að John finnist á lífi. Hugur okkar er hjá John Snorra, Ali og J Pablo. Sajid er kominn til byggða og við erum þakklát fyrir að hann er öruggur,“ segir Lína Móey, eiginkona John Snorra í tilkynningunni.
Þar segir jafnframt að fjölskylda Johns sé nú samankomin á heimili hans til að fylgjast með leitaraðgerðum og veita hvort öðru stuðning. Segir í tilkynningunni að fjölskyldan finni fyrir miklum stuðningi og hlýhug frá fjölmörgum aðilum. Leitin sé umfangsmikil og hefur stuðningurinn frá íslenskum stjórnvöldum verið mikill og þau tryggt að leitin sé eins umfangsmikil og raun ber vitni. Þá segir í tilkynningunni að íslensk stjórnvöld hafi komið á góðum samskiptum við stjórnvöld við Pakistan.
„Við þökkum öllum þeim sem hafa stutt við okkur, sent okkur hlýjar kveðjur og hvatningarorð. Við erum þakklát íslenskum stjórnvöldum, borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisiins, Ríkislögreglustjóra, Landhelgisgæslunni og Geimvísindastofnun Íslands fyrir ómetanlegan stuðning og fagmennsku meðan á leitinni hefur staðið. Og einnig þökkum við pakistönskum stjórnvöldum og öllum þeim sem tóku þátt í leitinni á fjallinu og hafa gert allt sem hægt er til að finna John Snorra, Ali og Juan Pablo,“ sagði Lína jafnframt.
„Þetta er erfiður tími fyrir okkur fjölskylduna og við óskum eftir því að fá andrými til að takast á við þessa þungbæru stöðu.“