Gallar í veggjum í nýlegu einbýlishúsi í Borgarnesi reyndust bæði kaupendum og grunlausum seljendum hússins afar þungbærir. Hjón sem seldu öðrum hjónum þetta hús, án þess að vita (að eigin sögn) um gallana á eigninni, sitja uppi með að þurfa að borga skaðabætur upp á tæplega 5,8 milljónir króna og 2,3 milljónir í málskostnað.
Dómur í málinu var kveðinn upp í Héraðsdómi Vesturlands í dag, 8. febrúar 2021.
Húsið var byggt árið 2007 en viðskiptin áttu sér stað árið 2018. Fljótlega eftir að nýju eigendurnir fluttu inn urðu þau vör við rakaskemmdir á veggjum við bílskúrsdyr. Samt leit þetta ekki svo illa út í byrjun. Byggingarfræðingur sem skoðaði verksummerki taldi að um óverulega skemmd væri að ræða sem væntanlega væri tilkomin vegna óþétts lista á bílskurðshurð.
En annað átti eftir að koma í ljós. Er smiður kom til að lagfæra skemmdirnar komst hann að þeirri niðurstöðu að frágangur veggjarins væri ekki réttur með tilliti til rakavarnar. Hjónin fengu þá byggingarfræðinginn fyrrnefnda til að skoða útveggina. Niðurstaða athugunar hans, sem og niðurstaða dómskvadds matsmanns sem síðar var kallaður til, var sú að veggirnir væru ekki rétt uppbyggðir með tilliti til rakavarnar. Raki í veggjunum reyndist var allt að 32% sem telst gríðarlega hátt.
Matsmenn töldu uppbyggingu veggjanna ekki standast nútímakröfur né reglugerð. Meðal galla í uppbyggingu var að engin lagnagrind væri til staðar sem ylli því að göt yrðu á rakavarnalagi þar sem rafmagnsdósir færu um rakavarnalag. Þá væri rakavarnalag ekki á réttum stað í veggjunum.
Hin stefndu höfðu sér til málsvarnar að þau hefðu ekki vitað af neinum göllum og því ekki aðhafst neitt óheiðarlegt við sölu hússins.
Dómurinn féllst á kröfur kaupendanna og dæmdi seljendurna til að greiða fyrrnefndar skaðabætur og málskostnað.