Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag. „Þetta er það sem, því miður, gerist þegar svona heimsfaraldrar ganga yfir, þá eykst álag á allt barnaverndarkerfið. Við vorum mjög meðvituð um það, þess vegna höfum við farið í fjölþættar aðgerðir til að styðja börn og barnafjölskyldur,“ er haft eftir Ásmundi Einari.
Síðasta vor var átakinu „Við erum öll barnavernd“ hleypt af stokkunum til að gera fólk meðvitaðra um málefni barna í faraldrinum og til að hvetja það til að tilkynna um vanrækslu eða ofbeldi í garð barna. Ásmundur hefur einnig beitt sér fyrir að félagslegar aðgerðir snúi að miklu leyti að börnum í viðkvæmri stöðu. „Það er aldrei jákvætt að barnaverndartilkynningum fjölgi en í þessu tilfelli þá er það jákvætt. Þess vegna höfum við verið að spýta inn í kerfin okkar, og við munum þurfa að gera það áfram,“ er haft eftir honum. Hann sagði jafnframt mikilvægt að tryggja áfram fjárveitingar til málefna barna að heimsfaraldrinum loknum. „Aðgerðirnar skiluðu árangri en við þurfum að vera á tánum áfram. Og við erum að gera það,“ sagði hann.