Íbúar á Akranesi eru allt annað en sáttir með tryggingafélagið VÍS (Vátryggingafélag Íslands) og Sementsverksmiðjuna á Akranesi. Í byrjun ársins gaus sement úr einum sementstankanna við höfnina á Akranesi og í kjölfarið var bærinn þakinn sementi. Sementið lagðist á bíla og hús í bænum og voru íbúar látnir hafa samband við VÍS fyrir bætur vegna sementsins. Nú hafa íbúar fengið boð um bæturnar hjá VÍS og þar liggur óánægjan.
Þeir íbúar sem lentu illa vegna sementsins stofnuðu Facebook-hóp þar sem þeir hafa tjáð sig um bæturnar sem þeim var boðið. DV fékk góðfúslegt leyfi til að fjalla um umræðurnar í hópnum og rætt var við meðlim í hópnum sem sagði að VÍS hafi boðið fólki 200 þúsund krónur fyrir þrifin. Íbúarnir vilja meina að sú upphæð dugi ekki fyrir þrifunum þar sem margir þurfa að þrífa bæði húsin sín og bílana.
Sjá meira: VÍS svarar reiðum íbúum Akraness – „Því miður hefur ekki enn náðst í alla“
Þá geta komið upp skemmdir vegna sementsins og hafa önnur tryggingafélög varað íbúa við að hrófla við sementinu þar sem það gæti fríað VÍS og Sementsverksmiðjuna af sinni ábyrgð. „Það er gjörsamlega óásættanlegt að taka við einhverri upphæð og þurfa svo að borga meira fyrir að láta þrífa húsið. Hvað þá ef það skapast einhver sjálfsábyrgð í málinu til lengri tíma litið ef skemmdir koma í ljós,“ segir ein kona í hópnum um málið.
„VÍS vonast klárlega til þess að fólk bara taki við þessum peningum og láti gott heita. Örugglega einhverjir sem eru í kröggum og líklegir til að taka við þessu og nenna ekki að standa í einhverju veseni. VÍS hefur ekki haft samband við mig, hvorki til að þrífa húsið eða bjóða mér neitt. Ég talaði við þá í síma daginn sem þetta kom í ljós og þeir sögðu mér að fara með bílinn til Hjalta og senda inn tjónatilkynningu sem ég gerði. Ég hafði síðan samband við þá og sagði að enginn hefði enn komið til að þrífa og þetta var allt bara í athugun og átti að koma boðunum áfram. Ég hef vonda tilfinningu gagnvart þessu öllu satt best að segja.“
„Þetta mál virðist ætla að verða algjör vitleysa“
Fleiri tóku undir þessi orð konunnar og vildi önnur kona meina að með þessari upphæð séu VÍS og Sementsverksmiðjan að reyna að fría sig af allri ábyrgð. „Mér finnst svona þrifabætur ekki gott boð. Verður naumt skammtað og ég upplifi að Vís og sementið séu að fría sig ábyrgð með svona bótum. Okkar hús var þrifið (erum á Mánabraut) en það er allt úti í sementi ennþá. Þessi þrif eru sýndarmennska og það þarf að kalla þetta slys réttum nöfnum; umhverfisslys sem þarf að fjalla um af alvöru.“
Mikið af sementi er bílum íbúanna. Einn meðlimur í hópnum segir að Gunnar H. Sigurðsson, framkvæmdastjóri Sementsverksmiðjunnar, hafi reynt að telja henni trú um að þetta væri ekki sement á bílnum hennar. „Reyndi að telja mér trú um að þetta væri hálendisryk á bílnum mínum þar til við gátum tekið pollaklessur sem höfðu safnast saman á stuðaranum og þefað,“ segir meðlimurinn.
Annar meðlimur segir að um sé að ræða algjört virðingaleysi við íbúa. „Þetta mál virðist ætla að verða algjör vitleysa, íbúar að þrífa sjálfir, allt skítugt aftur eftir þrif, algjört virðingaleysi við íbúa.
Haft var samband við Erlu Tryggvadóttur, samskiptastjóra VÍS, við vinnslu fréttarinnar en hún var upptekin og gat því ekki tjáð sig um málið að svo stöddu. Hún sagðist ætla að skoða málið og svara þegar um leið og hún getur.