Stór árekstur var í Ártúnsbrekku í Reykjavík nú síðdegis. Tveir árekstrar urðu neðst í brekkunni, þrír bílar í öðrum og fjórir í hinum. Að minnsta kosti fjórir voru fluttir á sjúkrahús í kjölfar árekstursins. Elín Agnes Kristínardóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn, segir þó í samtali við Fréttablaðið, sem greindi frá árekstrinum, að meiðslin virðist við fyrstu sýn ekki vera alvarleg.

Eins og við var að búast þá myndaðist mikil umferðarteppa vegna árekstursins en mikill viðbúnaður viðbragðsaðila var á svæðinu. Lögregla og slökkvilið luku sínum aðgerðum á vettvangi þegar klukkan var orðin rúmlega fjögur. Þá voru þrír sjúkrabílar á vettvangi sem fluttu að minnsta kosti þessa fjóra sem vitað er að slösuðust.

Lögreglan rannsakar nú málið en ekki er vitað hversu mikið tjón varð vegna slyssins.